Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Valur 0-2 | Langþráður Valssigur í Eyjum

Guðmundur Tómas Sigfússon á Hásteinsvelli skrifar
Valsmenn sóttu þrjú stig til Vestmannaeyja í kvöld, en þeir unnu 0-2 sigur á slökum Eyjamönnum á Hásteinsvelli. Sigurður Egill Lárusson kom gestunum á bragðið eftir aðeins ellefu mínútna leik þegar að hann skoraði framhjá David James á nærstöngina með hnitmiðuðu skoti. Undir lok fyrri hálfleiks bætti svo Patrick Pedersen við marki og þar við sat.

Valsmenn sóttu Eyjamenn heim til Vestmannaeyja en leikið var á Hásteinsvelli. Leikurinn fór skemmtilega af stað þótt ótrúlegt megi virðast en Ian Jeffs slapp einn innfyrir vörn Valsara en átti skot sem að Fjalar Þorgeirsson varði vel í markinu.

Eftir þetta fyrsta færi Eyjamanna tóku Valsmenn völdin, Sigurður Egill Lárusson slapp einn í gegn innfyrir vörn Eyjamanna þegar að hann fékk stungusendingu frá Indriða Áka og setti boltann í hægra hornið með föstu skoti. Vörn Eyjamanna leit alls ekki vel út, en það má ekkert taka af leikmönnum Vals sem nýttu sóknina vel.

Eftir mark Valsmanna datt leikurinn niður og fóru menn að reyna langa bolta og þá aðallega heimamenn sem að stilltu upp tveimur stærstu mönnum liðsins í framlínunni, þeim Brynjari Gauta og Gunnari Má en þetta plan Hermanns Hreiðarsson virðist ekki ætla að skila Eyjamönnum mörkum með vindinum í fyrri hálfleik.

Þegar að fram var komið í uppbótartíma í fyrri hálfleik þá skoruðu gestirnir annað mark sitt en þá komst Sigurður Egill innfyrir vörn Eyjamanna öðru sinni en gaf í þetta skiptið fyrir markið á Patrick Pedersen sem skoraði annað mark gestanna.

Í seinni hálfleik gerðist lítið sem ekkert en Brynjar Gauti átti skalla að marki sem að Matarr Jobe bjargaði af marklínu. Vörn Valsara spilaði mjög vel í leiknum en þar fóru Matarr Jobe og Magnús Már fremstir í flokki.

Undir lok leiksins elti Gunnar Már bolta sem stefndi á Fjalar í markinu. Gunnar fylgdi eftir hlaupinu og hljóp í síðuna á Fjalari sem að lá eftir. Þegar Þorvaldur Árnason var kominn með spjaldið í hendurnar sem hann ætlaði að gefa Gunnari Má ákvað Haukur Páll að koma á ferðinni og ýta í kassann á Gunnari Má sem að datt nokkuð auðveldlega í grasið. Þorvaldur gaf Hauki Páli umsvifalaust rautt spjald en sýndu Gunnari það gula.

Valsmenn og Eyjamenn hafa því sætaskipti í deildinni en þau sitja í 5. og 6. sæti deildarinnar og er Valur nú einu sæti ofar en hvorugt liðið á möguleika á Evrópusæti.

Guðjón Orri Sigurjónsson: Ekki nógu góður leikur af okkar hálfu„Það er klárlega fúlt að tapa þessum leik 2-0, leikurinn bauð nú ekki upp á mikið en þetta var bara ekki nógu góður leikur af okkar hálfu,“ sagði Guðjón Orri Sigurjónsson markmaður ÍBV sem kom inná í hálfleik gegn Valsmönnum í 0-2 tapi í dag.

„Ég held að ég hafi gert allt það sem ég gat gert,“ sagði Guðjón en David James var skipt út af vegna meiðsla að sögn Guðjóns sem stóð sig vel í markinu.

„Þegar þú ert að spila fyrir ÍBV þá ferðu í alla leiki til að gera þitt besta og til þess að sýna fólkinu hvað í þig er spunið, en því miður í dag þá var það ekki nógu gott,“ bætti Guðjón við að lokum.

Magnús Gylfason: Sannfærandi og öruggur sigur„Þetta var rosalega vel spilað og ég er gríðarlega ánægður að koma hérna til Eyja, þeir hafa verið á „run-i“ en við vinnum bara sannfærandi og öruggan sigur,“ sagði Magnús Gylfason þjálfari Valsmanna eftir sigurleik gegn Eyjamönnum.

Magnús var þjálfari ÍBV á seinustu leiktíð og segist vera mjög ánægður með þennan sigur og ekki síst vegna þess.

„Þetta er gríðarlega erfiður útivöllur og að koma hingað og spila svona góðan leik, ég er gríðarlega ánægður.“

Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiksins hér í dag, Magnús segist ekki hafa séð atvikið nægilega vel en hafði samt sína skoðun.

„Haukur kemur sem fyrirliði til þess að vernda sinn markmann, ýtir Gunnari frá honum, þeir renna til eða detta og Gunni rífur í Hauk og þeir steinliggja. Þetta var óhentugt og klaufalegt atvik, ég tel ekki hafa verið ástæðu til þess að sína rauða spjaldið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×