Innlent

Prófkjör Sjálfstæðismanna fer fram í nóvember

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningar 2014 fer fram þann 16. nóvember næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Vörður, fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sendir frá sér í kvöld. Eins og greint var á Vísi fyrr í kvöld hefur verið fallið frá því að leiðtogaprófkjör fari fram.

Á stjórnarfundi í gær var ákveðið að leggja tvær tillögur fyrir fulltrúaráðið í kvöld, um leiðtogakjör innan fulltrúaráðsins annars vegar og opið prófkjör hins vegar meðal flokksmanna. Aðeins verður kosið um þá tillögu að prófkjör fari fram.

Í tilkynningu frá stjórn Varðar kemur fram að Óttar Guðlaugsson, formaður Varðar, hafi lagt fram sáttatillögu í þeim tilgangi að ná víðtækri sátt meðal flokksmanna. Sáttatillagan felst í því að haldið verði prófkjör, í samræmi við 23. grein prófkjörsreglna Sjálfstæðisflokksins, þann 16. nóvember næstkomandi þar sem flokksfélagar velja með hefðbundnum hætti sæti á framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar 2014. Kjörnefnd sér síðan um að velja aftari sæti listanns líkt og hefð er fyrir. Einnig er gerð tillaga um að tímabundið verði vikið frá b. lið 5. gr. skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins sem kveður á um að einungis þeir einstaklingar hafi kjörgengi sem hafa greitt félagsgjöld sem síðasti aðalfundur þess félags ákvað og viðkomandi er skráður í.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.