Fótbolti

Tim Howard hissa á sjálfstrausti Arons

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Samsett
Aron Jóhannsson er í landsliðshópi Bandaríkjanna sem mætir Kostaríka í undankeppni HM 2014 aðfaranótt laugardags.

Aron er mættur til San José í Kostaríka ásamt félögum sínum í bandaríska landsliðinu. Stuðningsmenn heimamanna tóku „vel“ á móti Bandaríkjamönnum á flugvellinum. Var eggjum meðal annars kastað í rúður flugvallarins.

„Þessar móttökur voru af annarri stærðargráðu en ég hafði reiknað með,“ sagði Aron í samtali við bandaríska fjölmiðla fyrir æfingu liðsins í gær. Viðtalið er birt á heimasíðu MLS-deildarinnar. Landslið Bandaríkjanna er vant kuldalegum viðtökum í Mið- og Suður-Ameríku en þetta er fyrsta reynsla Arons af landsleikjum gegn grannþjóðunum.

„Stuðningsmennirnir eru greinilega spenntir fyrir leiknum en það erum við líka.“

Aron spilaði sinn fyrsta landsleik gegn Bosníu í Sarajevó á dögunum. Um æfingaleik var að ræða þar sem Aron kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik. Hann þótti standa sig vel og segist afar sáttur með andrúmsloftið í herbúðum landsliðsins.

„Það kemur mér ekki á óvart enda var Jozy (Altidore) búinn að segja mér hversu miklir toppmenn væru í liðinu,“ sagði Aron. Móttökurnar hafi verið frábærar og hann sé þegar orðinn einn af hópnum.

Tim Howard, markvörður Everton í ensku úrvalsdeildinni og landsliðinu, hrósaði Aroni fyrir frammistöðu sína í leiknum gegn Bosníu og Hersegóvínu.

„Hann er með ótrúlega mikið sjálfstraust. Ég veit ekki hvaðan það kemur. Ég hafði ekki svona mikið sjálfstraust þegar ég var strákur,“ sagði Howard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×