Fótbolti

Lagerbäck: Þessir strákar eru ótrúlegir

Henry Birgir Gunnarsson í Bern skrifar
Hinn sænski landsliðsþjálfari Íslands, Lars Lagerbäck, var brosmildur eftir leikinn ótrúlega gegn Sviss í kvöld.

"Þetta var ótrúlegt og ég hef ekki upplifað átta marka landsleik. Það er ótrúlegt. Leikmennirnir voru frábærir í seinni hálfleik og þeir sýndu einstakan karakter með því að koma til baka eftir að hafa lent 4-1 undir. Þessir strákar eru ótrúlegir. Nú eigum við raunverulegan möguleika á öðru sætinu," sagði Lagerbäck.

"Auðvitað var ég vonsvikinn framan af en Sviss er mjög gott lið og þeir spiluðu virkilega vel. Maður trúði ekki á endurkomu í stöðunni 4-1 en við vorum heppnir að skora fljótt og strákarnir fengu aftur trúna og kraftinn.

"Síðustu 30 mínúturnar vorum við miklu sterkari en lið Sviss," sagði Svíinn og bætti við að þetta væri einn af hans eftirminnilegustu leikjum á löngum ferli.

Þjálfarinn var að vonum ekkert sérstaklega ánægður með varnarleikinn hjá sínu liði.

"Sérstaklega í fyrri hálfleik. Við lékum ekki vel og töpuðum boltanum illa. Við vitum að þeir sækja hratt og við töpum boltanum illa og við gerðum okkur erfitt fyrir."

Helgi Valur Daníelsson var í byrjunarliðinu en kom af velli í hálfleik og Eiður Smári kom inn. Voru það mistök að byrja með Helga og hafa Eið á bekknum?

"Það er góð spurning því það er ekki hægt að svara henni. Það var gott að skipta Eiði inn. Þá gátum við sett Gylfa aftar og náðum betri stjórn á leiknum. Gylfi átti þátt í því að við snérum þessu við og Eiður stóð sig líka mjög vel."

Viðtalið við Lars má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×