Fótbolti

Lars Lagerbäck hrósaði Ara fyrir leikinn á móti Sviss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ari Freyr Skúlason fagnar úrslitunum í Sviss með fyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni.
Ari Freyr Skúlason fagnar úrslitunum í Sviss með fyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni. Mynd/AFP
Vörn íslenska karlalandsliðsins í fótbolta var harðlega gagnrýnd fyrir frammistöðu sína í 4-4 jafnteflinu á móti Sviss á föstudaginn en landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck var ekki eins ósáttur með varnarlínuna og margir aðrir. Hann hrósaði sérstaklega vinstri bakverðunum Ara Frey Skúlasyni.

Lars Lagerbäck hefur horft aftur á leikinn á móti Sviss ásamt aðstoðarmanni sínum Heimi Hallgrímssyni. Hann fór yfir leikinn með blaðamönnum í dag.

„Kannski var fyrri hálfleikurinn ekki eins slæmur og mér fannst hann vera séð frá hliðarlínunni. Við spiluðum ágætlega á köflum í hálfleiknum," sagði Lars Lagerbäck sem segir vítaspyrnuna sem skilaði Svisslendingum fjórða markinu hafi verið harður dómur.

„Mér fannst Svisslendingurinn leika þetta mikið og Birkir kom varla við hann," sagði Lagerbäck um vítið sem var dæmt á Birki Má Sævarsson.

„Svisslendingarnir voru vissulega betri en við í fyrri hálfleiknum en mér fannst við þó ekki spila það illa," sagði Lagerbäck sem tók upp hanskann fyrir varnarlínu íslenska liðsins þar sem spiluðu þeir Birkir Már Sævarsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason.

„Ég fékk margar spurningar eftir leikinn um varnarmennina en mér fannst þeir ekki spila það illa. Birkir átti ekki sinn besta leik en Ari var einn af okkar bestu mönnum þegar við sóttum í seinni hálfeik og komum okkur aftur inn í leikinn. Hann tók þátt í mörgum góðum sóknum og mér fannst Ari eiga góðan leik," sagði Lagerbäck.

„Ragnar og Kári voru allt í lagi, áttu kannski ekki sinn besta leik en þetta snýst líka um það hvernig við verjumst sem lið," sagði Lagerbäck sem taldi stærsta vandamálið vera að liðið var ítrekað að tapa boltanum á hættulegum stöðum.

„Stóra vandamálið er að við töpuðum boltanum alltof auðveldlega. Við gáfum Svisslendingum færi á svo mörgum sóknum af því að við vorum að tapa boltanum á slæmum stöðum. Við verðum að laga þetta," sagði Lagerbäck.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×