Fótbolti

Kári Árna: Var bara eins og handboltaleikur á tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason fagnar í Sviss.
Kári Árnason fagnar í Sviss. Mynd/AFP
Kári Árnason, varnarmaður íslenska landsliðsins, vill ekki meina að íslenska vörnin hafi verið hriplek í 4-4 jafntefli á móti Sviss á föstudagskvöldið. Hann segir samt að liðið þurfi að bæta varnarleikinn fyrir Albaníuleikinn á þriðjudagskvöldið.

„Ég held við í vörninni séum allir sammála um það að við hefðum frekar viljað að þessi leikur hafi endað 0-0. Í fyrri hálfleiknum erum við undir það mikilli pressu að þetta var erfitt. Þeir fá líka fjögur mörk á sig en það var enginn að segja að vörnin hjá þeim væri eitthvað slök," sagði Kári.

„Þetta er bara einn af þessum leikjum þar sem þetta er fram og til baka. Þetta var bara eins og handboltaleikur á tímabili," sagði Kári. Hann er á því að miðverðirnir, hann og Ragnar Sigurðsson, hafi vantað meiri stuðning í leiknum.

„Það var búið að segja við okkur að bakverðirnir ættu að sækja fram á við og það skilur okkur eftir svolítið berskjaldaða í vörninni þegar við erum að spila á móti liði með svona gæði. Í öðru markinu töpuðum við boltanum á miðjunni og þá er vinstri bakvörðurinn kominn fram í sóknina. Það er lítið sem við getum gert í því," sagði Kári.

„Við gefum svolítið færi á okkur í fyrri hálfleik en í seinni hálfleiknum var þetta allt annað. Við þurfum samt að lagfæra ýmislegt. Við þurfum að vera þéttari. Þetta snýst ekki um það að við séum beint að taka of mikla áhættu heldur frekar að menn velji sér rétta tímapunktinn til þess að gera ákveðna hluti," segir Kári.

„Við erum sterkir fram á við og menn segja að liðið hafi aldrei verið betra fram á við og það er örugglega rétt. Það er svolítið erfitt þegar við erum að ýta fleiri leikmönnum framar því þá eru náttúrulega færri að verjast," segir Kári.

„Það er ekki það að vörnin sé eitthvað hriplek því það er flóknara en það ef við förum yfir mark fyrir mark. Það er hægt að laga þetta og við ætlum að reyna að gera það á móti Albaníu," sagði Kári sem er jákvæður fyrir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×