Fótbolti

Á endanum er þetta alltaf mín ákvörðun

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hinn umdeildi Aron Jóhannsson gerði eitt mark fyrir AZ Alkmaar um helgina úr vítaspyrnu í leik gegn Hollandsmeisturum Ajax.

AZ vann leikinn 3-2 og fer vel af stað í hollensku úrvalsdeildinni. Aron Jóhannsson valdi á dögunum að leika fyrir bandaríska landsliðið í knattspyrnu en hann hefur tvöfalt ríkisfang.

Hann mun nú ferðast til Sarajevo þar sem hann mun í það minnsta æfa með bandaríska landsliðinu fyrir vináttulandsleik milli Bandaríkjanna og Bosníu-Hersegóvínu á miðvikudaginn.

Aron á eftir að fá formlegt leyfi frá FIFA um leikheimild með Bandaríkjunum.

„Það hafa margir tjáð sig um málið á Íslandi en á endanum er þetta bara mín ákvörðun,“ sagði framherjinn í viðtali við hollenska fjölmiðla.

Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður Ajax, lék einnig í umræddum leik en að mati íslenska landsliðsframherjans þarf að virða ákvörðun Arons.

„Fólk verður að virða hans ákvörðun. Ef hann hefði valið íslenska liðið þá hefðum við vel getað notað hans hæfileika,“ sagði Kolbeinn.

Kolbeinn og Alfreð Finnbogason eru framherjar íslenska landsliðsins eins og staðan er í dag.

„Ég og Alfreð erum að ná vel saman frammi með íslenska landsliðinu. Það væri gaman að sjá þrjá framherja í liðinu og þá gætum við allir þrír byrjað,“ sagði Kolbeinn á spaugilegum nótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×