Fótbolti

„Fyrsta markmið að haldast heill“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í góðum gír í sumar.
Kolbeinn Sigþórsson í góðum gír í sumar. Mynd/Heimasíða Ajax
„Ég var virkilega svekktur í maí þegar tímabilinu lauk. Ég var nýkominn á fullt á nýjan leik," segir landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson.

Kolbeinn og félagar hans hjá Ajax hefja titilvörnina í Hollandi í kvöld þegar liðið mætir Roda JC. Kolbeinn skoraði sjö mörk í deildinni með Ajax á síðustu leiktíð en hann var lengi frá vegna meiðsla líkt og á hans fyrsta tímabili með liðinu.

„Mér hefur gengið mjög vel í sumar," segir Kolbeinn í viðtali á heimasíðu Ajax. Hann segist hafa verið duglegur að æfa í sumar.

„Það var auðvitað frí en ég ákvað að halda áfram að æfa í sumarfríinu mínu," segir Kolbeinn og markmiðið fyrir tímabilið er ljóst.

„Fyrsta markmiðið á leiktíðinni er að haldast heill. Ef ég spila marga leiki og kemst í góðan takt þá vona ég að mörkin skili sér á leiktíðinni."

Kolbeinn segist vilja bæta sig á hverju ári og það sé vel mögulegt. Hann æfi af krafti á hverjum degi hvort sem áherslan sé á taktík með Frank de Boer (aðalþjálfara Ajax) eða tækni með Dennis Bergkamp (aðstoðarþjálfara Ajax).

Reikna má með því að Kolbeinn verði í byrjunarliði Ajax í kvöld við hlið þeirra Viktor Fischer og Bojan Krkic. Sá síðarnefndi verður í láni hjá Hollandsmeisturunum á leiktíðinni en hann er samningsbundinn Barcelona.

„Við þurfum að læra á hlaupin hvor hjá öðrum og átta okkur á því hvenær hinn vill fá boltann," segir Kolbeinn. Bojan hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar undanfarin ár en gæti passað vel inn í spilið hjá Ajax.

„Það tekur alltaf tíma að venjast aðstæðum en ég hef góða tilfinningu fyrir þessu. Bojan er leikmaður sem skilur liðsfélaga sína vel. Mér finnst við ná góðu sambandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×