Innlent

Erlendir glæpahópar skipulagðari en innlendir

Kristján Hjálmarsson skrifar
Í eina mansalsmálinu sem dæmt hefur verið í hér á landi voru erlendir glæpamenn á ferð, að því er segir í skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra.
Í eina mansalsmálinu sem dæmt hefur verið í hér á landi voru erlendir glæpamenn á ferð, að því er segir í skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra.
Flest bendir til að erlendir glæpahópar á Íslandi séu skipulagðari en innlendir, að því er segir í nýrri skýrslu sem greiningardeild ríkislögreglustjóra vann um skipulagða glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum. Á þetta einkum við um hópa sem rætur eiga að rekja til Mið- og Austur-Evrópu og þá sérstaklega Póllands og Litháens.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur að þessir hópar muni eflast á næstu árum. Staða þeirra á fíkniefnamarkaði sé sterk, sambönd við framleiðendur og birgja erlendis traust.

Í skýrslunni segir að starfsemi erlendu glæpahópanna sé síður háð tilviljunum og að meiri „atvinnumenska“ einkenni hana t.a.m. hvað verkaskiptingu varðar. "Þekkt er að einstaklingum innan þessara hópa sé „skipt út“ og enginn efi er á því að hingað til lands hafa beinlínis verið fluttir menn til að fremja afbrot."

Í skýrslunni segir þó að alhæfingar séu varasamar enda sé lífið í undirheimum "kvikt og um margt ófyrirsjáanlegt" þar sem "bandalög myndast og tvístrast á víxl."

Þótt margt bendi til þess að erlendir hópar á Íslandi sinni einkum fíkniefnasmygli, -framleiðslu og -dreifingu er ljóst að þessir aðilar eru tilbúnir að láta til sín taka á flestum sviðum afbrota. Þekkt er að erlendir hópar stundi skipulögð rán og gripdeildir, að því er segir í skýrslunni. Þá liggja fyrir sterkar grunsemdir þess efnis að hópar þessir komi að fjárkúgunum og hótunum innan samfélaga útlendinga hér á landi.

Greiningardeild telur ástæðu til að ætla að hópar þessir muni frekar en hitt eflast á næstu árum. Staða þeirra á fíkniefnamarkaði er sterk, sambönd við framleiðendur og birgja erlendis traust og geta og kunnátta til að sinna íslenska markaðinum er til staðar.

Skýrsluna má nálgast í heild sinni hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×