Fótbolti

Margrét Lára: Ekki bara að fara að spila á móti ellefu sænskum píum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára í viðtölum við sænska blaðamenn
Margrét Lára í viðtölum við sænska blaðamenn Mynd / Daníel
Margrét Lára Viðarsdóttir hefur ekki áhyggjur af íslenska liðinu gangi illa að fóta sig á stóra sviðinu þegar stelpurnar mæta gestgjöfum Svía á morgun í átta liða úrslitunum á EM. Það er búist við troðfullum velli og mikilli stemmningu þar sem Svíar um öskra sitt lið áfram.

„Við munum ráða vel við það. Við erum rosalega reynslumikinn hóp og erum ekkert engir unglingar lengur. Við erum búnar að spila lengi á þessu getustigi og margar búnar að spila í Meistaradeildinni þar sem það eru mikil læti á völlunum og mikið af fólki," segir Margrét Lára.

„Við erum ekki bara að fara að spila á móti ellefu sænskum píum heldur verða sjö þúsund manns sem styðja Svíana. Auðvitað verður þetta erfitt en við erum búnað að halda áfram þetta jákvæða og njóta augnabliksins. Við erum búnar að gera það alla keppnina. Við löbbum brosandi inn á völlinn og löbbum yfirleitt brosandi af velli líka. Við ætlum að halda því áfram og sjá hvort að það gefi okkur ekki eitthvað áfram," segir Margrét Lára.

„Það er aðeins farið að taka okkur meira alvarlega. Ef við förum áfram núna þá getur enginn annað en tekið okkur alvarlega. Við erum margar að spila í Svíþjóð og það vekur líka athygli. Það er bara gaman að þessu og við erum að njóta augnabliksins," segir Margrét Lára.

„Við höfum engu að tapa og förum óstressaðar inn í þennan leik. Við erum í frábærri stöðu til að gera einhver kraftaverk hérna og við ætlum okkur. Það er mikilvægt að halda núllinu sem lengst og tölfræðin sýnir það að við skorum yfirleitt mark þegar við spilum landsleik. Það er okkar markmið að halda rammanum okkar hreinu og ef það nægir eitt mark eins og í síðasta leik þá er það alveg nóg," segir Margrét Lára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×