Fótbolti

Margrét Lára: Við förum bara enn lengra á næsta stórmóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir, framherji íslenska kvennalandsliðsins, var eins og hinar í liðinu mjög svekkt eftir 0-4 tap á móti Svíum í átta liða úrslitum Evrópumótsins.

„Ef þú hefðir spurt Svíana fyrir leik hver færi uppskriftin af fullkomnum leik þá hefðu þær eflaust sagt að skora eftir þrjár mínútur og svo aftur eftir fimmtán mínútur. Leikurinn þróaðist nákvæmlega eins og þær óskuðu. Það gefur þeim mikið að skora strax á þriðju mínútu fyrir framan sjö þúsund manns. Það var erfitt hjá okkur að koma til baka eftir það," sagði Margrét Lára.

„Við ákváðum það að núllstilla okkur aðeins í hálfleik, reyna að vinna seinni hálfleikinn og spila upp á stoltið. Við vildum sýna íslensku þjóðinni að við værum betri en þetta. Við fáum á okkur eitt mark í seinni hálfleiknum og vörðumst ágætlega. Við vorum fyrir vikið ekki að komast næginlega vel upp völlinn. Svíar eru með frábært lið, heimsklassa leikmenn í öllum stöðum. Þær voru bara miklu betri en við í dag," sagði Margrét Lára.

„Leikplanið okkar var að halda núllinu og þá hefði tíminn farið að vinna með okkur. Við lendum strax undir og þetta verður rosalega erfitt. Við þurfum strax að færa okkur framan og svona. Leikurinn þróaðist á þá leið sem við vildum alls ekki. Þetta var erfitt allt frá þriðju minútu," sagði Margrét Lára.

„Við erum eitt af átta bestu liðum í Evrópu og getum verið virkilega stoltar af því. Það erfitt að sjá það núna því við erum rosalega svekktar og súrar eftir þennan leik. Við getum verið stoltar af okkar frammistöðu, við erum búnar að skrá okkur á spjöld sögunnar. Við verðum súrar og svekktar í dag en svo förum við að líta á það jákvæða og taka það með okkur," segir

„Þessi leikur fer í reynslubankann hjá okkur. Við erum í átta liða úrslitum á EM og að spila fyrir framan sjö þúsund brjálaða Svía. Við förum bara enn lengra á næsta stórmóti," sagði Margrét Lára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×