Fótbolti

Guðbjörg: Það gerðist eiginlega það sem mátti alls ekki gerast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg sést hér í miðjunni í grænu.
Guðbjörg sést hér í miðjunni í grænu. Mynd / Daníel Rúnarsson
Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska liðsins, þurfti að sækja boltann þrisvar úr markinu sínu á fyrstu tuttugu mínútunum þegar Ísland tapaði 0-4 fyrir Svíum í átta liða úrslitum Evrópumótsins í Halmstad í dag.

„Það gerðist eiginlega það sem mátti alls ekki gerast. Við fengum á okkur mark eftir tvær eða þrjá mínútur og það skemmdi allt fyrir okkur. Við urðum óákveðnar hvort við ættum að halda sama skipulagi eða fara upp völlinn því nú þurftum við að skora mark. Við gerðum það og þær fengu leikinn þangað sem þær vildu," sagði Guðbjörg.

„Þær spiluðu út á kantana, notuðu breiddina vel og drógu okkur út úr stöðunum. Þær opnuðu allt hjá okkur og voru með snögga sentera sem gátu alltaf fengið boltann í fætur eða upp í horn. Þær teymdu okkur út um allan völl," sagði Guðbjörg.

„Mér fannst við líka pínu óheppnar í sumum mörkunum og í tveimur þeirra fer boltinn í varnarmann,  breytir um stefnu og þá er ég of sein. Það gekk ekkert í dag," sagði Guðbjörg. Hún fékk á sig fyrsta markið eftir aðeins þriggja mínútna leik.

„Ég sá boltann seint, það voru allir að bakka og ég veit ekki einu sinni hvort hann kom við Sif eða ekki. Ég var líka of sein. Hún fékk bara að rekja boltann upp að teig, skaut og skoraði. Því miður. Við vissum að hún væri frábær skotmaður og hún hefur skorað þvílík mörk í sænsku deildinni. Ég átti kannski að vera meira á tánum og svo gátu varnarmennirnir líka stigið betur á móti henni. Ég veit ekki," sagði Guðbjörg.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×