Fótbolti

Katrín: Því miður var byrjunin slök hjá okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Jónsdóttir spilaði að öllum líkindum síðasta landsleikinn sinn í dag þegar íslenska kvennalandsliðið tapaði 0-4 á móti Svíþjóð í átta liða úrslitum Evrópumótsins í Svíþjóð.

„Þetta gekk ekki því miður. Þetta var rosalega erfið byrjun og við fáum á okkur mark eftir þrjár mínútur og síðan er orðið 3-0 eftir tuttugu mínútur. Við vorum því alltaf að berjast upp brekkuna og því miður var byrjunin slök hjá okkur," sagði Katrín.

„Mér fannst ömurlegt að vera búnar að fá okkur mark eftir þrjár mínútur. Ég hugsaði samt að það væri það mikið eftir að við gætum alveg komið til baka. Hluti af okkar leikpplani var hinsvegar að vera þéttar og að halda hreinu sem lengst. Þá hefðu þær orðið pirraðar og það hefði farið að teygjast meira á þeim," sagði Katrín.

„Þær fá strax ró á sitt spil með því að skora svona snemma og það var ekki gott," sagði Katrín en íslenska liðið var komið 3-0 undir eftir aðeins tuttugu mínútur.

„Seinnipartinn af fyrri hálfleik þá náðum við aðeins að þétta liðið og þetta varð aðeins betra. Í hálfleik töluðum við um að geta farið stoltar af vellinum. Við ætluðum að gefa allt okkar í þetta og spila með okkar íslensku hjörtum. Mér fannst allir gera það í seinni hálfleik en því miður var byrjunin ekki nógu góð og það háði okkur restina af leiknum," sagði Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×