Fótbolti

Danmörk í undanúrslit eftir mikla dramatík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Danir fagna marki Johönnu Rasmussen í kvöld.
Danir fagna marki Johönnu Rasmussen í kvöld. Nordicphotos/AFP
Danir tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Evrópumóts kvennalandsliða í knattspyrnu eftir sigur á Frökkum í vítaspyrnukeppni.

Frakkar réðu lögum og lofum í viðureign liðanna í Linköping í kvöld. Þær frönsku sóttu og sóttu að marki Dana sem lágu tilbaka og beittu skyndisóknum. Það var því þvert gegn gangi leiksins þegar Johanna Rasmussen kom Dönum yfir á 28. mínútu. Valsmaðurinn fyrrverandi fékk þá boltann skyndilega ein gegn markverði Frakka og kláraði færið vel.

Frakkar jöfnuðu ekki fyrr en tuttugu mínútum fyrir leikslok þegar Louisa Necib skoraði úr vítaspyrnu. Stina Petersen markvörður Dana, sem varði tvö víti Svía í 1. umferð riðlakeppninnar, hafði hönd á bolta en inn fór hann.

Framlengja þurfti leikinn þar sem stórsókn Frakka hélt áfram. Áður en yfir lauk Frakkar skotið 31 sinni að marki gegn fjórum skotum Dana. Vítaspyrnukeppni var hins vegar niðurstaðan og þar héldu taugar Dana. Þær dönsku skoruðu fjórum sinnum en Frakkar aðeins tvisvar. Fyrir vikið verða það Danir sem mæta Noregi í undanúrslitum. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Svíþjóð og Þýskaland.

Danir hafa ekki unnið leik á mótinu að frátöldum sigri í vítaspyrnukeppninni í dag. Liðið gerði tvö jafntefli í riðlakeppninni og fór áfram eftir að hlutkesti var varpað milli Dana og Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×