Enski boltinn

Valencia vill ekki selja Soldado

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn Valencia hafa gert forráðamönnum Tottenham ljóst að þeir munu ekki fá Roberto Soldado á afsláttarkjörum. Félagið hafi lítinn áhuga á að selja kappann.

Valencia verður að selja kappann ef félaginu berst tilboð upp á 30 milljónir evra, 4,8 milljarða króna, og forráðamenn Valencia ætla ekki að lækka verðið á honum.

„Soldado má fara ef hann vill - fyrir 30 milljónir evra og þá samkvæmt okkar skilyrðum,“ sagði Amadeo Salvo, forseti Valencia, á blaðamannafundi.

„Það hefur aldrei verið ætlun félaqgsins að selja Soldado. Ef hann fer verður það fyrir 30 milljónir evra, hvorki meira né minna. Kaupandinn verður líka að ganga að skilyrðum Valencia fyrir greiðslufyrirkomulaginu.“

Tottenham hefur aldrei greitt svo mikið fyrir leikmann en Villas-Boas sagði nýverið að Soldado væri í sigtinu hjá sér. „Hann er einn þeirra leikmanna sem við höfum áhuga á. Ferill hans talar sínu máli en það er ekki verið að semja um kaup hans nú. Málið er enn á viðræðustigi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×