Enski boltinn

Bale falur fyrir metfé

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Slúðurpressan á Englandi og Spáni slær ekki slöku við í umfjöllun dagsins um áhuga Real Madrid á Gareth Bale, leikmanni Tottenham.

Marca slær því upp á forsíðu í dag að Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, sé reiðubúinn að selja Bale ef Real Madrid býður einni milljón evra meira en félagið greiddi fyrir Cristiano Ronaldo á sínum tíma.

Marca og The Sun fullyrða að Real Madrid hafi þegar boðið 93 milljónir evra í kappann sem er þremur milljónum minna en Ronaldo kostaði árið 2009. Tottenham er því sagt vilja fá 97 milljónir evra - 15,4 milljarða króna - sem myndi gera Bale að dýrasta leikmanni sögunnar.

Marca fullyrðir svo að Bale sé bálreiður út í Levy fyrir að hafna risatilboði Real Madrid. Það gengur svo langt að vitna í samtal Bale við Levy án þess þó að geta þess nákvæmlega hvaða heimildir blaðið hefur fyrir innihaldi samtalsins.

„Þú gafst mér loforð. Þú lofaðir mér því að félagið myndi selja mig ef okkur tækist ekki að komast í Meistaradeildina og að almennilegt tilboð bærist. Nú er það tilboð komið og ég vil spila fyrir Real Madrid. Stattu við þín orð,“ er haft eftir Bale í Marca.

Levy þykir harður í horn að taka í samningaviðræðum eins og sýndi sig þegar að Tottenham seldi Dimitar Berbatov til Manchester United og Luka Modric til Real Madrid á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×