Fótbolti

Lítil pressa á okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg mætir á æfinguna í gær með félögum sínum í íslenska landsliðinu.
Guðbjörg mætir á æfinguna í gær með félögum sínum í íslenska landsliðinu. Mynd/Óskar Ó
Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins, segir íslensku stelpurnar ekki að láta slæmt gengi í undanförnum leikjum trufla sig í leiknum á móti Noregi á morgun. Íslenska liðið hefur tapað sex af sjö leikjum ársins.

„Það er lítil pressa á okkur en við setjum alltaf pressu á okkur sjálfar. Það er engin okkar komin til að vera bara með því við ætlum okkur áfram þrátt fyrir þetta mótlæti sem við höfum lent í á þessu ári," sagði Guðbjörg fyrir æfingu liðsins í Kalmar í gær.

„Það má ekki gleyma því að við höfum verið að spila á móti mjög góðum andstæðingum á þessu ári og við erum mjög vel undirbúnar og vitum hvar styrkleikar mótherja okkar liggja. Það má kannski segja sem svo að við værum kannski með meira sjálfstraust ef við hefðum mætt léttari andstæðingum. Sjálfstraust er samt eitthvað sem þú byggir út frá sjálfum þér og við þurfum bara að vinna með það þótt að við séum búnar að tapa þessum leikjum," segir Guðbjörg.

„Ég held samt að það skipti ekki máli hvað hefur gerst hingað til. Við þurfum bara að gleyma öllum sem búið er og einbeita okkur að fimmtudeginum. Það vita það allir að fyrsti leikurinn er hrikalega mikilvægur og við vitum það best sjálfar," segir Guðbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×