Fótbolti

Tvö víti Svía í súginn og Danir náðu jafntefli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lotta Schelin.
Lotta Schelin. Nordic Photos / Getty Images
Opnunarleikur EM í Svíþjóð var skrautlegur en þar fóru heimamenn illa að ráði sínu í 1-1 jafnteflisleik gegn Dönum.

Mariann Knudsen kom Dönum yfir með laglegu skoti en Nilla Fischer jafnaði fyrir heimamenn með flottu skallamarki áður en leikurinn var flautaður af.

Svíar spiluðu betur í seinni hálfleik og uppskáru tvö víti. Stine Petersen, markvörður Dana, varði hins vegar báðar spyrnur og var því hetja Dana í leiknum.

Fyrri vítaspyrnudómurinn var reyndar tæpur þar sem að brotið virtist eiga sér stað utan teigs. Lotta Schelin steig á punktinn en Petersen valdi rétt horn og varði frá henni.

Síðari vítið var svo dæmt á 85. mínútu er boltanum var skotið í hönd Theresu Nielsen, varnarmann Dana. Í þetta sinn tók Kosovare Asllani spyrnuna en Petersen sá einnig við henni.

Báðum leikjum dagsins í A-riðli lauk því með jafntefli en fyrr í dag gerðu Finnland og Ítalía markalaust jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×