Fótbolti

Sara Björk ein með þjálfaranum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Sara og Sigurður Ragnar á fundinum í gær.
Sara og Sigurður Ragnar á fundinum í gær. Mynd/Óskar Ó
Landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir hefur alltaf verið að fá meira og meira ábyrgðarhlutverk hjá íslenska kvennalandsliðinu. Þrátt fyrir ungan aldur er hún nú orðin varafyrirliði íslenska landsliðsins.

Hluti af því starfi er að koma fram fyrir hönd liðsins á blaðamannafundum UEFA og Sara Björk var eini leikmaðurinn sem mætti á blaðmannafund íslenska liðsins í gærkvöldi. Þar var farið yfir fyrsta leik liðsins á EM í Svíþjóð sem er á móti Noregi í kvöld.

Sara Björk sat fundinn ásamt Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, landsliðsþjálfara. Aðspurð að því hvort hún hafi verið stressuð að vera í þessari stöðu þá neitaði hún því enda kannski orðin vön því að svara spurningum blaðamanna.

Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi íslenska liðsins, stjórnaði fundinum og var einnig túlkur þegar skipt var yfir í íslensku. Hann grínaðist líka með það við sænsku blaðamennina að Sara Björk gæti vissulega svarað spurningum á sænsku en þá væri vandamálið að hvorki hann né Sigurður Ragnar vissu þá hvað hún væri að segja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×