Fótbolti

Ég býð þær bara velkomnar á minn hátt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif ásamt Katrínu Jóns og Ómars, Margréti Láru og Hallberu Guðnýju.
Sif ásamt Katrínu Jóns og Ómars, Margréti Láru og Hallberu Guðnýju. Mynd/ÓskarÓ
Sif Atladóttir hefur misst talsvert úr undirbúningi íslenska liðsins fyrir Evrópumótið í Svíþjóð vegna meiðsla en hún var með á síðustu æfingunum fyrir Noregsleikinn og er klár í slaginn í kvöld.

„Það er rosalega góð staða á mér. Ég var með á fullri æfingu í gær og er klár í slaginn ef að kallið kemur," segir Sif og bætir við:

„Ég gerði þetta í miklu samráði við sjúkrateymið mitt úti og landsliðið hefur verið mjög samvinnuþýtt með það prógramm. Ég hef trú á því prógrammi og hef ennþá. Ég var alltaf staðráðin að koma hingað."

Hún hefur staðið sig frábærlega sem miðvörður en Sigurður Ragnar notaði hana síðast sem bakvörð.

„Ég veit ekki hvort ég hafi þolið í að hlaupa upp og niður kantinn sem bakvörður," sagði Sif í léttum tón.

„Það skiptir engu máli því þá sinni ég bara meiri varnarskyldu ef það verður hlutverkið mitt.Ég er komin vel inn í þessa miðvarðarstöðu og það hefur gengið vel hjá mér þar. Við vonum og sjáum til."

En hefur hún einhverjar áhyggjur að þær norsku telji sig komast upp með eitthvað meira hjá henni en hinum varnarmönnum íslenska liðsins. „Ég er ekki mikið búin að spila í síðustu leikjum en ef að þær koma til mín þá býð ég þær bara velkomnar á minn hátt," segir Sif létt.

„Við förum inn í leikinn með eitt stig og ætlum að halda þessu eina stigi og reyna síðan að pota inn marki til þess að stela þessum þremur. Úrslitaleikur eða ekki. Við tökum einn leik í einu. Mótið byrjar á morgun en það endar ekki á morgun ef að illa fer."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×