Fótbolti

Ekki náð að spila 90 góðar mínútur á þessu ári

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Sigurður Ragnar ásamt liðsmönnum landsliðsins í Kalmar.
Sigurður Ragnar ásamt liðsmönnum landsliðsins í Kalmar. Mynd/ÓskarÓ
Sigurður Ragnar Eyjólfsson veit það best allra að íslenska kvennalandsliðið þarf að spila góðan leik á móti Noregi í kvöld ætli liðið að ná í öll þrjú stigin og fá draumabyrjun á Evrópumeistaramótinu í Svíþjóð.

„Það eru allar forsendur til þess að gera góða hluti í þessum leik. Við erum með gott lið alveg eins og þær. Leikir þessarra liða undanfarin ár hafa verið jafnir og liðin hafa skipst á að vinna hvort annað. Það eru klárlega möguleikar fyrir hendi og vonandi náum við að taka þrjú stig," segir Sigurður Ragnar um leikinn á móti Noregi í kvöld.

„Við höfum verið breytt aðeins varnarleiknum okkar frá því sem áður var. Frammistaða nokkra leikmanna hefur verið fín. Við höfum prófað okkur áfram í mörgu öðru. Við höfum því miður ekki náð að spila 90 góðar mínútur á árinu en það hafa oft komið mjög góðar 45 eða 60 mínútur í leikjunum," segir Sigurður Ragnar. Varnarleikur liðsins hefur ekki verið eins sterkur og oft áður.

„Við höfum fengið á okkur of mikið af mörkum en vonandi náum við að stoppa það. Það er mikilvægt í svona móti að fá ekki á sig mörg mörk því það er ólíklegt að þú skorir mörg. Það verður að vera góður og sterkur varnarleikur og vonandi náum við að byggja á því," segir Sigurður Ragnar.

„Við tókum þá ákvörðun að spila á móti mjög góðum liðum í undirbúningnum og flest þeirra hafa verið sterkari en við. Noregur gerði það sama og hafa lent í svipuðu eins og við. Þær byrjuðu árið ágætlega en svo hafa þær tapað fjórum leikjum í röð og ekki unnið í síðustu sjö leikjum. Liðin eriu kannski búin með svipaðan undirbúning og eru mjög álíka sterk. Svo verðum við bara að sjá hvað gerist í leiknum," sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×