Fótbolti

Ekki rekist á neina ofurbakverði í norsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Hólmfríður ásamt Katrínu Jóns, Margréti Láru og Sif Atla.
Hólmfríður ásamt Katrínu Jóns, Margréti Láru og Sif Atla. Mynd/Instagram
Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur sett stefnuna á að gera norsku bakvörðunum lífið leitt í fyrsta leik Íslands á EM í Svíþjóð. Ísland mætir þeim norsku í Kalmar í kvöld.

„Það er komin tilhlökkun og spenningur í mann enda styttist í þetta. Leikurinn í fyrra hefur engin áhrif á þennan leik. Þetta er bara önnur keppni og ég tel ekki að þær séu eitthvað betri en við. Þetta verður mjög jafn leikur," segir Hólmfríður en norska liðið vann 2-1 sigur þegar liðin mættust síðast í úrslitaleik um sigur í riðlinum í undankeppninni.

„Við höfum ekkert verið að tala um það þegar við töpuðum á móti þeim síðast. Við höfum verið að vinna þær og þær hafa unnið okkur. Nú er þetta bara spurningin um hvort liðið vill þetta meira," segir Hólmfríður. Hún skoraði eina mark íslenska liðsins á EM í Finnlandi fyrir fjórum árum.

„Ég er nánast búin að vera að bíða eftir þessari keppni frá því á síðasta leik á EM 2009. Vonandi náum við að skora meira en eitt mark í þessari keppni. Ég er viss um það að við náum að slípa sóknarlínuna og skapa okkur einhver færi. Það er bara að nýta þau," segir Hólmfríður.

Hún spilar í norsku úrvalsdeildinni með Avaldsnes IL og þekkir því vel til norsku stelpnanna.

„Ég er búin að spila á móti þessum leikmönnum í norska liðinu og þetta eru bara stelpur eins og við. Þær eru ekki miklu betri og veikleikarnir eru hjá bakvörðunum," segir Hólmfríður og bætir við:

„Þegar ég hef verið að spila á móti þeim í Noregi þá hef ég ekki rekist á einhverja ofurbakverði sem maður ætti ekki að komast í gegnum. Við eigum eftir að finna eitthvað pláss á bak við þá og fá einhverjar stungusendingar inn fyrir," segir Hólmfríður bjartsýn fyrir leikinn í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×