Fótbolti

Hvað með þessar tvær í norska liðinu sem eru fæddar árið 1995?

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Caroline Graham Hansen (t.v.) ásamt stöllum sínum í landsliðinu.
Caroline Graham Hansen (t.v.) ásamt stöllum sínum í landsliðinu. Mynd/Fésbókarsíða Hansen
Ísland leikur í kvöld sinn fyrsta leik á Evrópumeistaramótinu í Svíþjóð þegar stelpurnar okkar mæta Noregi. Norska liðið hefur gengið í gegnum endurnýjun á síðustu árum og í liðinu í dag eru tvær 18 ára stelpur sem mikið er búist af í framtíðinni.

Þetta eru þær Caroline Graham Hansen og Ada Hegerberg. Hansen varð átján ára í febrúar en Hegerberg hélt upp á 18 ára afmælið í gær. Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, spilar í norsku úrvalsdeildinni og þekkir til þeirra.

„Það eru tvær ungar stelpur fæddar 1995, framherji og kantmaður. Þær eru mjög góðir leikmenn og þá sérstaklega hægri kanturinn. Caroline Hansen er besti ungi leikmaðurinn sem ég hef nokkurn tíman séð," segir Hólmfríður.

Hansen spilar með Stabæk í norsku deildinni og skoraði meðal annars tvö mörk fyrir norska landsliðið í 2-3 tapi á móti Rússum á dögunum.

Ada Hegerberg er þegar kominn á atvinnumannasamning hjá þýska stórliðinu Turbine Potsdam en lék áður með Stabæk. Hegerberg varð markahæsti leikmaður norsku deildarinnar árið 2012 þegar hún skoraði 20 mörk í 18 deildarleikjum og skoraði auk þess 8 mörk í 5 bikarleikjum. Hún skoraði 5 mörk í 11 deildarleikjum með Potsdam-liðinu.

Hansen sýndi mátt sinn meðal annars í leik á móti Búlgaríu í undankeppni EM en þá skoraði hún eitt mark og lagði upp fimm til viðbótar i 11-0 sigri.

Þess má geta þá eru tveir leikmenn í íslenska liðinu sem eru fæddar árið 1995 en það eru þær Glódís Perla Viggósdóttir úr Stjörnuni og Elín Metta Jensen úr Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×