Fótbolti

Umfjöllun: Ísland - Noregur 1-1 | Fyrsta stigið á EM

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Fanndís í baráttu við Toril Akerhaugen í leiknum í dag.
Fanndís í baráttu við Toril Akerhaugen í leiknum í dag. Nordic Photos / AFP
Margrét Lára Viðarsdóttir tryggði íslenska kvennalandsliðinu 1-1 jafntefli í fyrsta leik sínum á Evrópumeistaramótinu í Svíþjóð. Hún skoraði af öryggi úr vítaspyrnu fjórum mínútum fyrir leikslok. Það stefndi í að hlutirnir væru að falla með norska liðinu í jöfnum leik eins og undankeppninni síðasta haust en íslensku stelpurnar gáfust ekki upp og náðu frábærum lokakafla í leiknum.

Íslenska liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum á EM í Finnlandi árið 2009 þegar stelpurnar stigu söguleg skref á sínu fyrsta stórmóti. Nú fjórum árum síðar eru þær strax búnar að stíga næsta skref og gera betur en þá. Þetta jafntefli er því sigur fyrir íslenska kvennalandsliðið.

Norska liðið skoraði eina mark fyrri hálfleiksleiksins eftir varnarmistök um hann miðjan og fékk framan af leik hættulegustu færin. Íslenska liðið var hinsvegar alltaf inn í leiknum og var að reyna að byggja upp sóknir en eins og stundum áður þá vantaði herslumuninn að liðið skapaði sér alvöru færi. Norðmennirnir spiluðu afar skynsamlega og tókst vel að loka svæðum sérstaklega eftir að þær fengu markið sitt á silfurfati frá íslensku varnarlínunni.

Leikskipulag norska liðsins virtist vera að ganga og það voru þær sem sköpuðu sér bestu færin í leiknum þrátt fyrir laglega spilakafla íslensku stelpnanna. Það þurfti margt að falla með íslenska liðinu í þessum leik og mark Kristine Hegland á 26. mínútu var eitthvað sem íslenska liðið varð helst að sleppa við.

Stelpurnar létu ekki mótlætið buga sig og íslenska liðinu óx ásmeginn þegar leið á seinni hálfleikinn og fór að fá sín færi. Sara Björk Gunnarsdóttir komst í tvö góð færi en varnarmenn norska liðsins komust fyrir skotin hennar. Margrét Lára Viðarsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir fengu allar skotfæri í og við teiginn en náðu ekki nógu góðum skotum.

Sara Björk Gunnarsdóttir hætti aldrei og það var hún sem breytti sögunni fyrir íslenska kvennalandsliðið með því að fá víti fjórum mínútum fyrir leikslok. Margrét Lára Viðarsdóttir steig óhrædd á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Norska liðið var reyndar nálægt því að skora í tvígang í uppbótartíma leiksins. Rétt fyrir leikslok fór boltinn af varnarmanni íslenska liðsins og í slánna en íslensku stelpurnar sluppu með skrekkinn og fögnuðu sögulegu stigi í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×