Innlent

Umboðsmaður Alþingis segir framkvæmd verðtryggingar löglega

Valur Grettisson skrifar
Róbert Spanó er settur umboðsmaður Alþingis.
Róbert Spanó er settur umboðsmaður Alþingis.
Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að innheimta á verðtryggðu lánsfé verðtryggðra lána sé lögleg.

Hagsmunasamtök heimilanna leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir því að fyrirmæli reglna Seðlabanka Íslands frá 2001 um framkvæmd verðtryggingar skorti lagastoð.

Af því leiddi að innheimta á verðtryggðu lánsfé væri ólögmæt í þeirri mynd sem henni væri háttað.

Bentu samtökin á að í reglunum væri kveðið á um verðtryggingu láns með breytingu á „höfuðstóli“ láns. Þá héldu þau ennfremur fram að í lögum um vexti og verðtryggingu, sem reglurnar grundvallist á, væri hins vegar kveðið á um verðtryggingu „greiðslna“.

Að mati samtakanna yrðu lögin því ekki skilin á annan hátt en þann að verðbætur mætti einungis leggja við afborganir lána en ekki höfuðstól lánsfjár.

Á heimasíðu umboðsmanns Alþingis kemur fram að settur umboðsmaður rakti í meginatriðum þá löggjöf sem gilt hefur um verðtryggingu hér á landi síðustu áratugi, allt frá setningu laga nr. 71/1966 um verðtryggingu fjárskuldbindinga til ákvæða gildandi laga um vexti og verðtryggingu frá 2001.

Leit settur umboðsmaður sérstaklega til markmiðs þess að komið var á almennri verðtryggingu með lögum frá 1979 að höfuðstóll skuldar breyttist með verðlagsþróun.

Væri það með skýrum hætti tekið fram í lögunum. Þegar litið væri með heildstæðum hætti til þeirra breytinga sem gerðar hefðu verið á lagareglum um verðtryggingu allt til gildandi laga frá árinu 2001 yrði ekki dregin sú ályktun að staðið hafi til að gera breytingar á framkvæmd verðtryggingar eins og henni hefur síðan verið háttað.

Svo segir í niðurstöðu umboðsmanns: Að virtu orðalagi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, samhengi þeirra við önnur ákvæði laganna og forsögu löggjafar um verðtryggingu, varð það niðurstaða setts umboðsmanns Alþingis að ekki yrði annað fullyrt en að það fyrirkomulag er mælt væri fyrir um í reglum Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 væri í samræmi við lög.

Fyrir áhugasama má nálgast álitið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×