Fótbolti

Sif bað um skiptingu

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Nordic Photos / AFP
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, varð að gera tvær breytingar eftir klukkutímaleik. Hann tók Fanndísi Friðriksdóttur réttilega útaf en varð einnig að gera breytingu á vörninni. Sif Atladóttir var nefnilega búin að biðja um skiptingu.

Hin átján ára Glódís Perla Viggósdóttir kom þá inn á í sínum fyrsta keppnisleik en hún hefur spilað alla leiki ársins þar af flesta þeirra í byrjunarliðinu.

„Sif sagði okkur í hálfleik að hún myndi ekki endast meira en tíu til fimmtán mínútur í seinni hálfleik. Við vildum ekki spila henni meira. Hún var fín fyrir leikinn og var ekki með verki. Við tókum áhættuna með hana. Hún var okkar besti leikmaður í fyrra og hefur mikinn hraða í vörnina. Það var fínt fyrir okkur að hafa hana þótt að það væri bara í þessar 60 mínútur," sagði Sigurður Ragnar um Sif.

„Hún er dugnaðarforkur og með mikinn viljastyrk. Hún getur pínt sig svolítið en við vildum ekki spila henni og lengi sérstaklega þar sem að hún bað um skiptingu," sagði Sigurður Ragnar en það var ekki auðvelt fyrir svona unga stelpu eins og Glódísi að koma inn í leikinn á þessum tímapuntki.

„Það er rosalega erfitt að koma inn á í svona leik sem varnarmaður og hvað þá að vera ungur varnarmaður. Hún er búin að spila fáa A-landsleiki. Það er kannski aðeins auðveldara að byrja leikinn því þá venst þú því hvernig leikurinn er að þróast og svona. Hún var svolítið stressuð sem er eðlilegt," sagði Sigurður Ragnar og nokkrum sinn skall hurð nærri hælum hjá Glódísi.

„Þetta slapp en húner ein af þessum framtíðarstelpum í þessum A-landsliði. Hún er gríðarlega efnileg og við munum halda áfam gefa henni spilatíma. Hún er einn af þessum leikmönnum sem þarf að fá tíma og þolinmæði," sagði Sigurður Ragnar um Glódísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×