Innlent

Menntamálaráðherra jákvæður fyrir styttingu námstíma

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Nám í Verzlunarskóla Íslands verður stytt úr fjórum árum í þrjú árið 2015.
Nám í Verzlunarskóla Íslands verður stytt úr fjórum árum í þrjú árið 2015.
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra er mjög jákvæður fyrir því að námstími í framhaldsskólum landsins verði styttur úr fjórum árum niður í þrjú ár. Hann segir að Ísland sé eina landið innan OECD þar sem námstíminn frá grunnskóla upp í framhaldsskóla sé fjórtán ár.

Framhaldsskólanám til stúdentsprófs tekur að öllu jöfnu fjögur ár hér á landi en víða í nágrannalöndunum er námið mun styttra.  Menntamálaráðherra er mjög jákvæður fyrir öllum hugmyndum um styttingu námsins.

„Við erum eina þjóðin í OECD þar sem það tekur fjórtán ár að afla sér réttinda til að hefja háskólanám. Hjá öðrum þjóðum eru það ýmist 12 eða 13 ár. Maður veltir því fyrir sér vers vegna Ísland ætti  að vera eina OECD þjóðin þar sem námið tekur þetta langan tíma. Þetta er ekki til að stytta eða draga úr námi, heldur aftur á móti til að bæta og auka við námið,“ segir Illugi.

Illugi segir að nú þegar sé hafin vinna við styttingu námsins í  hans ráðuneyti.

„Ég vil hefjast handa sem fyrst, en það eru auðvitað margir sem að þessu koma. Ég held að það sé að myndast samstaða í samfélaginu og skilningur á því fyrir því að skoða þetta alvarlega. Þetta er stærsta efnahagsmál þjóðarinnar. Við þurfum að gæta þess aðn nýta tíma ungmennanna vel og nýta vel þá fjármuni sem við leggjum inn í þennan málaflokk,“ sagði Illugi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×