Innlent

Efnahagslegur stöðugleiki í forgang

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hvetur ráðamenn til að setja efnahagslegan stöðugleika í forgang og stuðla að því að tíu þúsund ný störf verði til svo hægt sé að koma á fullri atvinnu og mæta vaxandi fjölda fólks á vinnumarkaði.

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ritaði í vikunni pistil á heimasíðu SA undir heitinu „Vöndum til verka-vinnum saman" þar sem hann hvetur ráðmenn til að setja efnahagslegan stöðugleika í forgang svo unnt sé að lækka verðbólgu og vexti og samhliða auka kaupmátt launa.

„Við höfum búið við mikinn efnahagslegan óstöðugleika undanfarin ár. Mikla verðbólgu, langt umfram það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar, og þetta er rekstarumhverfi sem getur hvorki verið viðunandi fyrir fyriræki né heimili í landinu til lengdar," segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir að íslenskt atvinnulíf sé byggt upp af litlum og meðalstórum fyrirtækjum og hagvöxtur muni ekki taka kipp fyrr en þeim fyrirtækjum verði sköpuð hagstæðari skilyrði.

„Það er alveg sama upp á teningnum hér og annarsstaðar í Evrópu að þar eigum við lang mest vaxtatækifæri þegar kemur að fjölda starfa og því þurfum við að hlúa mjög vel að rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja."

Að mati Þorsteins þarf á næstu árum að skapa að minnsta kosti tíu þúsund ný störf svo hægt sé að koma á fullri atvinnu og mæta vaxandi fjölda fólks á vinnumarkaði. Hann telur það fyllilega raunhæft og segir gerð starfanna ráðast af því hvaða atvinnuvegir muni standa uppúr hér í samkeppnishæfni.

„Ég hef nú þá trú að það séu fyrirtækin sem finna út úr því á endanum við þurfum bara að skapa þeim skilyrði til þess að vaxa og dafna í. Það er kannski tvennt sem stendur upp úr, það eru gjaldeyrishöft sem eru að hamla fyrirtækjum mjög í dag og síðan náttúrulega eru stórauknar skattaálögur á fyrirtæki. Mér telst til að hér hafi skattar á atvinnulífið verið hækkaðir um það bil 60 milljarða á ári hverju á síðastliðnum fjórum árum. Við erum að kvarta yfir því að hér vanti um 150 milljarða á ári inn í fjárfestinguna hjá fyrirtækjunum og það gefur auga leið að skattaaukningin ein og sér skýri stóran hluta af þeirri vöntun."

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins



Fleiri fréttir

Sjá meira


×