Fótbolti

Glódís Perla: Veit ekki hvort ég fæ að byrja

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Landsliðsfyrirliðinn Katrín Jónsdóttir óskar hér Glódísi til hamingju með fyrsta leikinn á stórmóti.
Landsliðsfyrirliðinn Katrín Jónsdóttir óskar hér Glódísi til hamingju með fyrsta leikinn á stórmóti. Mynd/ÓskarÓ
Glódís Perla Viggósdóttir spilaði síðasta hálftímann í jafntefli á móti Noregi í fyrsta leik íslenska liðsins á EM í Svíþjóð. Það var fyrsti leikur hennar á stórmóti en hún er nýorðin 18 ára gömul.

En verður þessi stórefnilegi miðvörður í liðinu á móti Þýskalandi í kvöld?  „Ég veit það ekki því það er ekki búið að tilkynna byrjunarliðið," segir Glódís en hún var ein af fjórum leikmönnum liðsins sem komu í viðtöl við fjölmiðlamenn fyrir leikinn.

„Mér líst rosalega vel á þennan leik. Ég held að við eigum góða möguleika og við ætlum að nýta okkur þá. Við verðum að spila þéttan og góðan varnarleik og reyna síðan að sækja hratt á þær," segir Glódís Perla.

„Ég held að við ætlum ekki að fara aftar en við vorum á móti Noregi heldur reyna að halda okkur á svipuðum stað. Þetta snýst síðan um að ná skyndisóknunum þegar við vinnum boltann. Þær eru með miklu betra uppspil held ég en norska liðið og fleiri sóknarmöguleika. Við getum alveg unnið með það," segir Glódís.

Hún segir samkeppnin um sæti í liðinu hafa engin áhrif á liðsandann því að þær standi allar saman í þessu.

„Það eiga allar jafna möguleika á því að fá að spila og maður stendur bara með þeim sem eru inn á vellinum hverju sinni," segir Glósís Perla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×