Fótbolti

Rakel: Búin að spila allar stöður á vellinum, meira að segja í marki

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Rakel Hönnudóttir.
Rakel Hönnudóttir. Mynd/ÓskarÓ
Rakel Hönnudóttir var í byrjunarliði íslenska liðsins í jafnteflinu á móti Noregi og spilaði allar 90 mínúturnar í sögulegum leik. Rakel er ein af leikmönnum liðsins sem spilar heima á Íslandi en hún er hjá Breiðabliki.

„Við erum sáttar með stigið sem við fengum á móti Noregi þó við hefðum auðvitað vilja taka þrjú stig. Það er mikil stemmning í hópnum og mjög gaman hjá okkur. Við erum bara ánægðar," segir Rakel Hönnudóttir. Hún var ánægð með byrjunarliðssætið í fyrsta leik.

„Það var mjög mikil viðurkenning en ég hef ekkert rosalega mikið fengið að byrja á þessu ári," segir Rakel sem var að glíma við meiðsli í aðdraganda mótsins.

„Ég missti af tveimur leikjum með Breiðabliki eftir að hafa fengið spark í ökklann en það var svo sem ekki alvarlegt," segir Rakel en var hún ekki hrædd um að lenda í því sama og Katrín Ásbjörnsdóttir sem var valin í 23 manna hópinn en missti af EM vegna meiðsla.

„Ég hafði kannski smá áhyggjur um tíma en svo þegar leið á þá vissi ég strax að þetta væri eitthvað smá," sagði Rakel. Nú bíður erfiður leikur á móti Þýskalandi.

„Þær eru fimmfaldir Evrópumeistarar og þetta verður mjög erfiður leikur. Þær eru sennilega mjög ósáttar með eina stigið sem þær fengu á móti Hollandi. Þær koma örugglega brjálæðar inn í leikinn," segir Rakel sem er þó hvergi smeyk.

„Við höfum náð fínum úrslitum á móti Þýskalandi. Við höfum spilað við þær tvisvar á síðustu fjórum árum og tapað í bæði skiptin 0-1. Við fengum færi í þessum leikjum og við erum bara bjartsýnar," segir Rakel en verður hún áfram í byrjunarliðinu?

„Ég reyni að gera mitt besta á æfingum og í leikjum. Ég vona að ég haldi sætinu í byrjunarliðinu en þetta er mjög sterkur hópur þannig að maður veit aldrei," segir Rakel. Rakel er einn allra fjölhæfasti leikmaður íslenska liðsins.

„Ég er búin að spila mjög margar stöður með landsliðinu. Ég var að taka það saman um daginn að ég væri búin að spila allar stöður á vellinum annaðhvort í efstu deild eða með landsliðinu. Meira að segja markið. Það var fyrir mörgum árum þegar markvörðurinn okkar fékk rautt spjald og við vorum ekki með neinn varamarkmann. Ég skellti mér því í markið. Ég er því klár í hvað sem er," segir Rakel að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×