Fótbolti

Guðbjörg: Þær hafa aldrei rúllað yfir okkur

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Guðbjörg Gunnarsdóttir. Mynd/Fésbókin
Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð sig vel í markinu í fyrsta leik íslenska kvennalandsliðsins á EM í Svíþjóð þegar liðið náði jafntefli á móti Noregi. Það er afar líklegt að hún haldi sæti sínu á móti Þýskalandi í kvöld þótt að Þóra Björg Helgadóttir sé öll að koma til í endurhæfingu sinni eftir tognun aftan í læri.

„Við búumst við mjög erfiðum leik. Þegar við skoðum síðustu leiki okkar á móti Þýskalandi þá hafa þær ekki unnið okkur stórt. Ég held að við höfum tapað tvisvar sinnum 0-1 á móti þeim á síðustu fjórum árum. Það skiptir kannski ekki miklu máli núna en gefur okkur samt það sjálfstraust að þær hafa aldrei rúllað yfir okkur. Þær eru klárlega ekki að fara gera það á morgun," segir Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska liðsins.

„Ég held að þetta sé góður tímapunktur til að mæta þeim því það hafa verið ákveðin kynslóðarskipti í liðinu. Það eru ekki sömu stórstjörnur í þessu þýska liði eins og voru til dæmis á síðasta EM. Það er vissulega svakaleg hefð með þessu liði en þetta eru allir leikmenn sem hafa verið í þessu gullaldarliði þeirra sem er búið að vinna allt," segir Guðbjörg.

„Það er svo erfitt að giska á hvernig þær verða í leiknum á móti okkur þótt að við höfum séð þær spila fyrir tveimur dögum á móti Hollandi. Við vitum hvernig fótbolti er því stundum eiga lið góða daga og stundum eiga þau slæma daga. Ég veit ekki hvaða dagur þetta var hjá þeim," segir Guðbjörg.

„Þessi úrslit í fyrstu leikjunum opnuðu riðilinn og það eru allir á núllpunkti aftur. Það eru allir með eitt stig þannig að við höfum hvorki unnið neitt né tapað neinu," segir Guðbjörg. Hún veit að íslenska liðið er að fara spila öðruvísi leik en þann á móti Noregi á fimmtudaginn.

„Þetta verður allt annar leikur. Þær eru miklu betri að halda bolta heldur en Noregur og eru líkari Dönunum. Ég held að við getum nýtt okkur það sem við lærðum í leiknum á móti Danmörku fyrir mótið. Við vitum að þær munu hafa boltann meira en við og þannig er það bara. Við verðum minna með boltan en þannig leggjum við leikinn líka upp. Það segir ekki að þær þýsku skori fleiri mörk," segir Guðbjörg.

Guðbjörg vissi ekki hvort að hún fengi að halda sæti sínu í byrjunarliðinu þegar viðtalið var tekið í gær. „Ég sjálf verð að byrja að undirbúa mig eins og ég sé að fara að spila leikinn því það er bara sólarhringur í leikinn. Ég vona það besta en maður veit aldrei," sagði Guðbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×