Fótbolti

Annike Krahn hlakkar til að mæta Margréti Láru

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir í viðtali við þýska sjónvarpsstöð.
Margrét Lára Viðarsdóttir í viðtali við þýska sjónvarpsstöð. Mynd/ÓskarÓ
Annike Krahn fær væntanlega það hlutverk að gæta Margrétar Láru Viðarsdóttur þegar Ísland og Þýskaland mætast í kvöld í öðrum leik liðanna á Evrópumeistaramótinu í Svíþjóð. Bæði lið gerðu jafntefli í fyrsta leik.

Annike Krahn er 28 ára gömul og spilar nú með franska liðinu Paris Saint-Germain. Hún var í herbúðum FCR 2001 Duisburg frá 2004 til 2012 og þar á meðal þegar Margrét Lára kom þangað í stuttan tíma veturinn 2006 til 2007.

„Ég spilaði með Margréti í stuttan tíma hjá Duisburg," sagði Annike Krahn á blaðamannafundi þegar hún var spurð út í íslenska framherjann.

„Ég veit að hún er stjarnan í íslenska liðinu. Hún er mjög hættuleg fyrir framan markið og er orðinn mjög öflugur leikmaður. Ég hlakka til að mæta henni," sagði Annike Krahn.

Þýska liðið olli vonbrigðum með því að ná aðeins markalausu jafntefli í fyrsta leiknum. „Það er alltaf erfitt að komast í gegnum fyrsta leikinn. Þessi leikur heyrir hinsvegar sögunni til og við ætlum að gera miklu betur í leik tvö," sagði Annike Krahn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×