Fótbolti

Stelpurnar okkar þurfa að passa sig á þessari númer þrettán

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Célia Okoyino da Mbabi
Célia Okoyino da Mbabi Mynd/NordicPhotos/Bongarts
Célia Okoyino da Mbabi spilar sem fremsti leikmaður í þýska landsliðinu sem mætir því íslenska í kvöld á Evrópumeistaramótinu í Svíþjóð. Mbabi er 25 ára gömul og nýgengin til liðs við þýska stórliðið 1. FFC Frankfurt.

En hvað segir Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska liðsins, um stjörnurnar í þýska liðinu í leiknum í kvöld.

„Markvörðurinn Nadine Angerer er lifandi goðsögn og Mbabi, framherjinn númer 13, er líka rosalega góð. Ég spilaði æfingaleik á móti henni í ár með félagsliðinu mínu og hún skoraði einmitt eina markið í leiknum. Við þurfum virkilega að passa okkur á henni því hún er fjölhæfur sóknarmaður," segir Guðbjörg.

Célia Okoyino da Mbabi spilaði frá 2004 til 2013 með SC 07 Bad Neuenahr og skoraði þá 93 mörk í 129 leikjum í þýsku deildinni. Hún hefur skorað 41 mark í 80 landsleikjum frá 2005.

Okoyino da Mbabi fór á kostum í undankeppninni þar sem hún varð langmarkahæst með 17 mörk í 7 leikjum (plús 4 stoðsendingar). Hún skoraði meðal annars þrjár fernur, á móti Kasakstan, Spáni og Sviss en á móti Svisslendingum áttu hún þátt í öllum sex mörkum þýska liðsins.   

„Ég veit síðan að þær eru góðar út á köntunum, koma upp með bakverðina og eru með mikið af fyrirgjöfum. Þær eru ekki með mikið af bjúguboltum inn á teig. Þær eru með vel útfærðar sóknir og fjölbreyttan sóknarleik. Það er því ekki eitthvað eitt sem við þurfum að skoða sérstaklega vel. Þær geta bæði sótt hratt og langt og síðan á stuttu spili í gegn. Það er kannski léttara að lesa norska liðið heldur en að lesa þýska liðið," segir Guðbjörg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×