Innlent

"Íslendingar kaþólskari en páfinn í heilbrigðismálum“

Karen Kjartansdóttir skrifar


,,Íslendingar eru oft kaþólskari en páfinn þegar kemur að rekstri, allt virðist eiga að vera á hendi ríkisins." Þetta segir fyrrverandi framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga sem vinnur að því að kortleggja umfang íslenska heilbrigðiskerfisins.

Ummæli heilbrigðisráðherra um hagræðingu innan heilbrigðiskerfins og frekari einkarekstur innan þess hafa vakið upp misjöfn viðbrögð.

Formaður Samfylkingarinnar hefur notað orð eins og dólgakapítalisma í tengslum við þetta mál og formaður Vinstri grænna hefur bent á að Bandaríkin reki dýrasta heilbrigðiskerfi heims og að sökin sé óhagkvæmur einkarekstur.

Friðfinnur Hermannsson, ráðgjafi hjá Gekon er fyrrverandi framkvæmdastjóri heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, hann vinnur nú að því að kortleggja íslenska heilbrigðiskerfið, segir að koma þurfi umræðunni úr pólitískum skotgröfunum.

„Hérna erum við einhvern veginn kaþólskari en páfinn þegar kemur að rekstri og það er eins og allt eigi að vera á hendi hins opinbera og rekið af því. Það sem skiptir máli er bara góð heilbrigðisþjónusta sem allir geta nýtt sér og notað án tillits til efnahags. Hvernig við gerum það svo er bara úrlausnarefni," segir Friðfinnur.

Nú þegar fari um 25% af kostnaði ríkisins við heilbrigðisþjónustuna í einkarekna þjónustu sem oft hafi gefist mjög vel. Nauðsynlegt sé að gera enn betur og til þess megi nýta reynslu Norðmanna og Svía af frekari einkarekstri.

„Ég hvet alla til að slaka á og leyfa sér að velta því fyrir sér hvort hægt sé að gera þetta öðruvísi en nú er og hvort ekki megi finna tækifæri til að gera enn betur," segir Friðfinnur.

En við niðurskurð, einkum í heilbrigðiskerfinu, gengur oft illa að ná fram raunverulegri hagræðingu því kostnaðurinn flyst aðeins til innan kerfisins. Friðfinnur segir það ekki séríslenskt heldur hafi allar þjóðir líklega fengið að kynnast þessu.

Því þurfi að gæta þess vel að horft sé heildrænt á kerfið og nýta þekkingu innan þess.

Þetta hafi til dæmis komið skýrt í ljós við athugun á fyrirhuguðum niðurskurði á Austurlandi fyrir nokkrum árum.

„Niðurstaðan þá var að þegar heildarmyndin var skoðuð var hægt að efast um nokkrun þjóðhagslegan ávinning af þeim niðurskurði," segir Friðfinnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×