Fótbolti

Finnar stóðu af sér stórsókn Dana og jöfnuðu síðan í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Annica Sjölund tryggði Finnum jafntefli.
Annica Sjölund tryggði Finnum jafntefli. Mynd/AFP
Það stefnir allt í það að Danir sitji aftur eftir í riðlakeppni EM kvenna í fótbolta sem liðið með slakasta árangur í þriðja sæti. Það gerðist fyrir fjórum árum og nú lítur út fyrir að sömu örlög bíði danska landsliðsins. Danir náðu aðeins að gera jafntefli við Finna í kvöld í lokaleik sínum í A-riðli og enda því í þriðja sæti riðilsins með tvö stig.

Danir voru í stórsókn allan tímann, voru yfir 23-4 í skotum og skoruðu fyrsta mark leiksins á 29. mínútu. Danir héldu áfram að sækja og menn biðu eftir fleiri dönskum mörkum. Þau komu ekki.

Finnar náðu hinsvegar að standa af sér stórsókn Dana og tryggja sér síðan jafntefli þremur mínútum fyrir leikslok eftir að hafa skorað með skalla á nærstönginni eftir hornspyrnu.

Þetta voru bestu möguleg úrslit fyrir íslenska liðið sem veit núna að sigur á Hollandi á morgun tryggir liðinu sæti í átta liða úrslitum keppninnar. Tvö af þremur liðum í 3. sæti riðlanna þriggja komast áfram í átta liða úrslitin en Danir urðu í 3. sæti í A-riðli með 2 stig.

Svíar og Ítalir enduðu í tveimur efstu sætunum í A-riðli og eru komnir áfram ásamt Frökkum úr C-riðli. Hollendingar tryggja sér 3. sætið í riðli Íslands með jafntefli við Ísland en ná þá bara tveimur stigum eins og Danir.

Það þyrfti þá að draga um það hvort liðið færi áfram í átta liða úrslitin svo framarlega sem að liðið í 3. sæti fái ekki færri stig. Ísland kemst í fjögur stig með sigri og verður þá alltaf fyrir ofan Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×