Innlent

Ruslíbúð á toppverði

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ekki beint smekklegt.
Ekki beint smekklegt. MYND/BLAND.IS
Auglýsing sem birtist á Bland.is í dag hefur farið eins og eldur í sinu um netheima síðustu klukkustundir. Þar er auglýst til leigu 55 fermetra „sæt íbúð í hjarta Reykjavíkur“ á 145 þúsund krónur á mánuði. Þá þarf leigjandi að leggja fram tryggingu upp á 435 þúsund krónur. Er það nokkurn veginn í takt við það sem gengur og gerist á leigumarkaðnum í dag.

Í auglýsingunni er tekið fram að nýr leigjandi þurfi sjálfur að þrífa og mála íbúðina eftir seinasta leigjanda, og því verði 15 þúsund krónur slegnar af leigunni fyrsta mánuðinn.

Þegar myndir af íbúðinni eru skoðaðar kemur svo í ljós að íbúðin er vægast sagt í slæmu ástandi. Rusl flæðir út úr herbergjum og íbúðin er grútskítug. Þegar betur er að gáð bendir ýmislegt til þess að auglýsingin sé einhvers konar ádeila á leigumarkaðinn í dag, en myndirnar eru falsaðar.

Heitar umræður hafa skapast í athugasemdakerfinu á Bland.is vegna málsins og á sérstökum umræðusíðum leigjenda á Facebook. Fólk er almennt sammála um að auglýsingin sé grín og líklegt þykir að myndirnar séu erlendar. Aftur á móti telja margir auglýsinguna vera mikilvæga ádeilu á leigumarkaðinn, þar sé ástandið er vægast sagt svart.

„Miðað við ástandið á leigumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu kæmi mér ekki á óvart að margir taki þessa auglýsingu alvarlega, þetta er alveg lýsandi fyrir hvernig leigumarkaðurinn er orðinn,“ og „þetta er svo sorglega stutt frá raunveruleika leigumarkaðsins að það er ekki fyndið,“ er meðal þess sem fólk hefur skrifað í athugasemdir við auglýsinguna.

Fyrir skömmu var efnt til undirskriftasöfnunar á netinu til að vekja athygli stjórnvalda á ástandi leigumarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur fram að framboð á húsnæði sé í algeru lágmarki og  að húsaleiga sé óheyrilega há.

Hér má sjá umrædda auglýsingu á Bland.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×