Fótbolti

Blikar í sömu búningum og Bumban á'ðér

Stefán Árni Pálsson skrifar
Myndir/ fésbókarsíða Bumban á'ðér
Nýju búningar Breiðabliks hafa vakið töluverða athygli en liðið leikur aðeins í þeim í Evrópudeildinni.

Sterkt utandeildarlið fyrir norðan Bumban á'ðér leikur í sama búningi frá Jako en liðið er aðeins skipað bumbum frá Húsavík.

Forráðamenn félagsins eru allskostar ekki sáttir við nýja búning Blika og rituðu á fésbókarsíðu síðu sína;

Til að byrja með, og alveg upp úr þurru, ákvað Völsungur að stela af okkur markmanninum Kjartani Pál Þórarinssyni. Reyndar lofaði Völsungur okkur tveimur pylsupökkum í skiptum fyrir markmanninn knáa, en við höfum ekki hnotið um þessar pylsur ennþá! Rétt er að taka það fram að til að menn séu löglegir í leiki Bumbunar þá mega þeir ekki hafa spilað svo mikið sem 1 min. í einhverri af fjórum efstu deildunum á Íslandi. Og því tóku Völsungar af okkur markmanninn með því að láta hann spila einn leik með sér. Við viljum fá þessar andskotans pylsur!

Næsta áfall var svo þegar Breiðablik(fótboltalið í Kópavogi) ákvað að stela búningunum okkar. Hversu vandræðalega hallærislegt er það að lið í efstu deild þurfi að leggjast svo lágt að stela búningunum okkar? Þeir eru ekki líkir, búningarnir, þeir eru alveg eins. Frumleg þessi krútt í Kópavoginum. Við höfum ekki fengið neinar bætur ennþá, en þetta mál er í vinnslu og með þessari yfirlýsingu vonumst við til að Breiðablik sjái sóma sinn í því að senda okkur nokkrar pylsur!

Blikar etja kappi við Sturm Graz í Evrópudeildinni í kvöld og hefst leikurinn kl 19:15 en hann verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×