Innlent

Krepputal á undanhaldi

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Kreppufréttir í fjölmiðlum hafa ekki verið færri frá hruni en í nýliðnum júnímánuði. Samkvæmt kreppuorðsvísitölu Arion banka er krepputal á undanhaldi og gæti það bent til aukins hagvaxtar í landinu.

Kreppuorðsvísitalan svokallaða byggir á því hversu margar fréttir eða greinar innihalda orðið kreppa á gefnu tímabili. Það er greiningardeild Arion banka sem tekur vísitöluna saman en hún er byggð á fréttum allra íslenskra prent- og ljósvakamiðla  eins og þær birtast í ítarleit Fjölmiðlavaktarinnar.

Nýjustu mælingar benda til þess að krepputal sé á hægu undanhaldi en í nýliðnum júnímánuði birtust 59 fréttir þar sem minnst var á kreppu og hafa þær ekki verið jafnfáar síðan í árslok 2007.

Kreppufréttir náðu hæstu hæðum hrunmánuðinn október 2008 en tíðni þeirra hefur síðan legið niður á við. Toppur kom þó í notkun orðsins kreppa í apríl síðastliðnum vegna alþingiskosninganna. Færri kreppufréttir eru góðar fréttir fyrir landsmenn því skýr fylgni er á milli hagvaxtar og fjölda kreppufrétta.

„Leitni orðsins kreppa hefur verið niður á við og það er líka í takt við þessar góður fréttir sem hafa verið að berast úr hagkerfinu, samdráttur hefur snúist í vöxt og leitni orðsins er að minnka. Við vonum að þetta haldist áfram í hendur, það er að segja betri tíð og færri kreppufréttir," segir Hafsteinn Hauksson hjá greiningardeild Arion banka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×