Enski boltinn

Nýtt tilboð á leiðinni í Suarez?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Enski vefmiðillinn Goal.com fullyrðir í dag að Arsenal sé nú að undirbúa nýtt tilboð í sóknarmanninn Luis Suarez hjá Liverpool.

Liverpool hafnaði nýverið tilboði frá Arsenal í kappann en það var talið vera upp á 30 milljónir punda (5,6 milljarðar) auk fimm milljóna í viðbótargreiðslur.

Wenger er sagður viljugur nú að hækka sig um fimm milljónir punda þannig að heildartilboðið væri samkvæmt því upp á 40 milljónir (7,4 milljarðar).

Suarez er með klásúlu í samningi sínum sem skyldar Liverpool að íhuga öll tilboð upp á minnst 40 milljónir punda.

Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, hefur þó barist fyrir því að halda Suarez í röðum félagsins og sagði á blaðamannafundi í gær að hann teldi leikmanninn jafn mikils virði og Edinson Cavani sem var seldur til PSG fyrir 55 milljónir punda í vikunni. Cavani og Suarez eru báðir frá Úrúgvæ.

Suarez missir þó af upphafi næsta tímabils þar sem hann á enn eftir að taka út sex leiki af tíu leikja banninu sem hann fékk fyrir að bíta Branislav Ivanovic, leikmann Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×