Fótbolti

FIFA vill að Argentína og Úrúgvæ haldi saman HM 2030

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá HM 1930.
Frá HM 1930. Mynd/NordicPhotos/Getty
Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu mun halda upp á hundrað ára afmælið sitt árið 2030 og Julio Grondona, formaður argentínska knattspyrnusambandsins segir að Alþjóðaknattspyrnusambandið hafi óskað eftir því að Argentínumenn og Úrúgvæmenn haldi keppnina saman.

Úrúgvæ hélt fyrstu heimsmeistarakeppnina árið 1930 og tryggði sér þá fyrsta heimsmeistaratitilinn með því að vinna 4-2 sigur á Argentínu í úrslitaleiknum í Montevideo. Argentínumenn héldu keppnina 1978 og urðu þá heimsmeistarar.

„FIFA óskar eftir því að halda upp á hundrað ára afmælið í Argentínu og Úrúgvæ. Ég get staðfest það," sagði Julio Grondona, formaður argentínska knattspyrnusambandsins, í útvarpsviðtali í Argentínu.

„Knattspyrnusambönd þjóðanna tveggja hafa þegar undirritað samkomulag og svo kemur bara í ljós hvað við gerum," sagði Grondona.

HM hefur bara einu sinni farið fram í tveimur löndum en Japanir og Suður-Kóreumenn héldu keppnina saman árið 2002.

HM 2014 fer fram í Brasilíu, Rússar halda HM 2018 og HM 2022 fer fram í Katar. Það er ekki búið að ákveða hvar keppnin fer fram 2026 en bæði Kanada og Mexíkó hafa áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×