Innlent

Svört skýrsla um stjórnun Eirar

Hrund Þórsdóttir skrifar
Skýrsla Deloitte er áfellisdómur yfir stjórn Eirar.
Skýrsla Deloitte er áfellisdómur yfir stjórn Eirar.
Á fundi stjórnar Eirar í byrjun árs var samþykkt að leita til óháðra sérfræðinga og rannsaka aðdraganda þeirra erfiðleika sem steðja að rekstri og fjárhag Eirar.

Nú er komin út skýrsla Deloitte og þar kemur meðal annars fram að fyrrverandi forstjóri Eirar auk fjármálastjóra og fleiri aðila, hafi nýtt fé heimilisins í flugferðir, gistingu og veitingar erlendis og nemur upphæðin alls 2,7 milljónum króna. Ekki hefur verið sýnt fram á að greiðslurnar tengist með beinum hætti rekstri Eirar og telur Deloitte ástæðu til að kanna bókhald Eirar frekar og meta hvort stjórnendur kunni að hafa farið á svig við lög.

Einn og sami aðilinn hefur hingað til gegnt stöðu formanns fulltrúaráðs og formanns stjórnar Eirar og hefur hann í raun verið í þeirri stöðu að hafa eftirlit með sjálfum sér. Þetta er gagnrýnt í skýrslunni og þegar leitað var viðbragða hjá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, sem sinnti þessum embættum, sagði hann að enginn hefði gert athugasemdir við fyrirkomulagið fram að þessu. Hann samsinnti því þó að þetta væri óæskilegt og breyta þyrfti skipulaginu.  Hann sagði helstu skýringa á stöðu Eirar að leita í efnahagshruninu.

Benda má á að umfang rannsóknar Deloitte var aðeins 50 klukkustunda vinna, en Ríkisendurskoðun hafnaði á sínum tíma beiðni um allsherjarúttekt á þeim grundvelli að ekki væru lagaheimildir fyrir henni. Stefán Benediktsson sat í stjórn Eirar á þessum tíma og hann segir nýju skýrsluna varla geta talist óháða úttekt. Hún sé gerð í verktöku fyrir núverandi stjórn og telur hann enn þörf á allsherjarúttekt.

Staða Eirar er afar slæm og sést það vel á því að ekki var hægt að verja meiri fjármunum í rannsókn Deloitte, en sem nemur 50 klukkustunda vinnu. Mörgum spurningum er því enn ósvarað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×