Enski boltinn

Alberto í læknisskoðun í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar greina frá því að Luis Alberto, leikmaður Sevilla á Spáni, muni í dag gangast undir læknisskoðun hjá Liverpool í Englandi.

Talið að Liverpool hafi náð samkomulagi við Sevilla um kaupverð sem er sagt nema 6,8 milljónum punda eða 1,3 milljarð króna.

Alberto var í láni hjá B-liði Barcelona á síðustu leiktíð en Börsungar ákváðu að nýta sér ekki forkaupsrétt sem liðið hafði á leikmanninum.

Þá er einnig talið að stutt sé í að Liverpool kaupi markvörðinn Simon Mignolet frá Sunderland. Samningaviðræður hafa verið í gangi milli félaganna en Liverpool mun greiða allt að tíu milljónir punda, 1,9 milljarð króna, fyrir kappann.

Óvíst er hvaða áhrif það hafi á stöðu Pepe Reina en hann á þrjú ár eftir af samningi sínum við Liverpool.

„Ég er mjög ánægður hjá Liverpool,“ sagði hann nýlega. „Ég er þó viss um að félagið myndi ekki standa í vegi fyrir mér ef ég fengi hins vegar tækifæri til að fara til enn stærra félags. Það eru þó ekki mörg félög stærri en Liverpool.“

Liverpool samd við Kolo Toure í vor og þá liggur einnig fyrir að sóknarmaðurinn Iago Aspas komi frá Celta Vigo á Spáni.

Henrikh Mkhitaryan, armenskur landsliðsmaður hjá Shakhtar Donetsk, er einnig sterklega orðaður við félagið þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×