Fótbolti

Spænskir landsliðsmenn rændir eftir fatapóker?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Juan Mata og Fernando Torres með aðdáendum á ströndinni.
Juan Mata og Fernando Torres með aðdáendum á ströndinni. Nordic Photos / Getty Images
Leikmenn spænska landsliðsins munu hafa vaknað upp við vondan draum eftir að hafa skemmt sér á hóteli sínu í Brasilíu á dögunum.

Álfukeppnin fer nú fram þar í landi og Spánn er komið í undanúrslit þar sem liðið mætir Ítalíu á fimmtudagskvöldið.

Eftir sigurleik liðsins gegn Úrúgvæ í riðlakeppninni í síðustu viku var ákveðið að slá upp veislu á hóteli liðsins, eftir því sem fram hefur komið í brasilískum fjölmiðlum. Hljómsveit var til að mynda fengin til að skemmta mannskapnum.

Eftir að hún hafði lokið sér af ákváðu nokkrir leikmenn að fá fimm brasilískar konur upp á herbergi með sér og spila fatapóker.

Sumir þeirra gengu svo til náða með umræddum konum. En þegar þeir vöknuðu næsta morgun voru þær á brott og leikmennirnir nokkrum þúsundum evra fátækari.

Fyrir nokkrum dögum staðfesti FIFA að leikmenn hefðu verið rændir á hóteli sínu og var þá Gerard Pique eini leikmaður liðsins sem var nafngreindur. Það er hins vegar ekki vitað hvort hann var einn þeirra leikmanna sem tók þátt í fatapókernum.

Hann er sem kunnugt er í sambandi með söngkonunni Shakira og á með henni barn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×