Fótbolti

Brasilía í úrslitaleikinn í fimmta sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paulinho fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Paulinho fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Nordic Photos / AFP
Brasilía keppir til úrslita um Álfubikarinn í knattspyrnu eftir að hafa lagt Úrúgvæ að velli í undanúrslitum í kvöld, 2-1.

Ungstirnið Neymar lagði upp bæði mörk sinna manna í kvöld. Það fyrra fyrir Fred undir lok fyrri hálfleiks en Paulinho skoraði svo sigurmarkið með skalla eftir hornspyrnu skömmu fyrir leikslok.

Edinson Cavani hafði jafnað metin fyrir Úrúgvæ snemma í síðari hálfleik eftir slakan varnarleik Brasilíu og mistök fyrirliðans Thiago Silva.

Úrúgvæ fór illa að ráði sínu þegar að Diego Forlan brenndi af vítaspyrnu á upphafsmínútum leiksins. Vítið var dæmt eftir að David Luiz, leikmaður Chelsea, togaði niður Diego Lugano. Julio Cesar varði þó vel frá Forlan.

Heimamenn fögnuðu því sætum sigri á endanum og mæta annað hvort heims- og Evrópumeisturum Spánar eða Ítalíu í úrslitaleiknum á sunnudag.

Brasilía hefur þrívegis unnið þessa keppni áður, oftast allra. Liðið hefur unnið síðustu tvær keppnir, síðast í Suður-Afríku fyrir fjórum árum síðan, en aðeins tapað einum úrslitaleik. Það var gegn Mexíkó árið 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×