Enski boltinn

Stoke var helvíti á jörðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Eiður Smári Guðjohnsen var í ítarlegu viðtali á útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu nú í morgun þar sem hann fór um víðan völl.

Eiður spilar með Club Brugge í Belgíu og verður áfram með liðinu á næstu leiktíð, ef ekkert breytist. Hann myndi þó stökkva á tækifæri til að spila í ensku úrvalsdeildinni á ný - þó ekki með Stoke.

„Stoke var helvíti á jörðu,“ sagði Eiður sem var á mála hjá Stoke í nokkra mánuði á sínum tíma. Þá var liðið undir stjórn Tony Pulis sem hætti nýlega. Mark Hughes tók við. „Ég gæti vel ímyndað mér að spila undir stjórn Hughes en ekki hjá Stoke.“

Eiður hóf nýliðið tímabil hjá litla liðinu í Brugge, Cercle Brugge. Hann skipti svo yfir í Club í janúar síðastliðnum.

„Það var smá pirringur í stuðningsmönnum Cercle, enda fór ég til erkifjendanna. Það var svo sem vitað að ég yrði ekki lengi hjá Cercle en þá var frekar búist við því að ég færi til liðs utan Belgíu,“ sagði hann.

„En það er mjög stutt á milli liðanna í borginni. Það er til dæmis ekki nema einn gervigrasvöllur á milli æfingasvæða liðanna og ég get vinkað gömlu félögunum í nýja búningnum,“ sagði hann og hló.

Hægt verður að hlusta á viðtalið í heild sinni á Fótbolta.net síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×