Enski boltinn

Perez: Mourinho tekur við Chelsea

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic PHotos/Getty

Florentino Perez forseti Real Madrid segir það klárt að Jose Mourinho muni taka við enska úrvalsdeildarliðinu Chelsea öðru sinni í sumar en Mourinho er hættur sem knattspyrnustjóri Real Madrid.

Mourinho kvaddi Real Madrid með 4-2 sigri á Osasuna í gær en hann þurfti að horfa á eftir titlinum til Barcelona í vetur.

Mourinho hefur lengi verið orðaður við endurkomu á Stamford Bridge en hann stýrði liðinu frá 2004 til 2007 með góðum árangri. Hann vann deildina tvisvar með Chelsea, enska bikarinn einu sinni og deildarbikarinn tvisvar.

Eftir að Mourinho fór frá Chelsea vann hann þrennuna með Inter 2010, ítalska bikarinn, ítölsku deildina og Meistaradeild Evrópu. Hann gerði Real Madrid að Spánarmeisturum 2012.

Ricardo Carvalho sem lék undir stjórn Mourinho hjá Chelsea og Real Madrid líst vel á að Mourinho fari aftur til Chelsea.

„Liðinu hefur gengið vel en það er mikilvægt fyrir liðið að bæta sig. Þetta félag skiptir mig miklu máli, ég var mjög ánægður þarna og ég vona að liðið vinni titla. Liðið vann Evrópudeildina en það er deildin sem skiptir öllu máli,“ sagði Carvalho.

„Hann vinnur deildina á öðru eða þriðja ári en hann getur líka gert það á fyrsta ári. Hann gerði það þegar hann kom 2004 og getur gert það aftur,“ sagði Carvalho.

Enska knattspyrnusambandið biðst afsökunar

Enska knattspyrnusambandið birti frétt í gær á heimasíðu sinni þess efnis að Mourinho væri tekinn við Chelsea. Fréttin hefur verið tekin út og hefur enska knattspyrnusambandið beðist afsökunar á fréttinni.

„Þetta voru mistök. Við tókum fréttina út um leið og við vorum látin vita af fréttinni og við töluðum við Chelsea og báðum félagið afsökunar,“ sagði talsmaður sambandsins.

„Við höfum enga fyrirfram vitneskju af neinum viðræðum eða tilkynningum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×