Enski boltinn

Pellegrini að ræða við City

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty

Manuel Pellegrini hefur staðfest að hann sé að hefja viðræður við enska úrvaldsdeildarliðið Manchester City um að taka við knattspyrnustjóra stöðu liðsins sem hefur verið laus eftir að Roberto Mancini fékk að taka pokann sinn.

Pellegrini hefur stýrt spænska úrvalsdeildarliðinu Malaga en hans síðasti leikur þar var nú um helgina þegar liðið tapaði 4-1 fyrir meisturum Barcelona.

Pellegrini er 59 ára gamall og frá Chile. Hann hefur um nokkurt skeið verið álitinn fyrsta val stjórnar Manchester City til að taka við liðinu og hefur Pellegrini nú staðfest að viðræður séu að hefjast.

„Þegar við náum samkomulagi mun ég láta ykkur vita,“ sagði Pellegrini við enska blaðamenn vegna spurninga um stöðu mála. „Ég hef samið um að hefja viðræður við Manchester City.“

„Sumar sögunar verða sannar, aðrar ekki en ég hef einbeitt mér að Malaga þar til nú. Nú þegar deildin er búin get ég byrjað að vinna í því sem framundan er á mánudaginn.

„Það verður erfitt fyrir mig að yfirgefa Spán eftir níu ár. Mér hefur liðið mjög vel hér en framtíðin mun bera mig til annars lands,“ sagði Pellegrini.

Khaldoon Al Mubarak stjórnarformaður City telur að taki félagið ekki meira en 10 daga til að semja við nýjan stjóra.

„Við viljum halda áfram að ná árangri og það er ekkert mikilvægara hjá knattspyrnuliði en að ráða knattspyrnustjóra,“ sagði Al Mubarak.

„Við þurfum að finna stjóra sem er góður í að eiga við menn og nær því besta út úr hverjum og einum leikmanni.

„Við höfum sett saman lista yfir stjóra sem passa við okkar áætlanir og erum svo gott sem búnir. Ég býst við að við sendum frá okkur tilkynningu um ráðningu eftir tvær vikur,“ sagði Al Mubarak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×