Innlent

Vildu fá staðfestingu á því hver færi með utanríkismál þjóðarinnar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Mynd/ Stöð 2 fréttir

Embættismenn á vegum Evrópusambandsins settu sig í samband íslenska utanríkisráðuneytið eftir þingsetningarræðu forseta Íslands á fimmtudag til að fá staðfestingu á því hver fari með utanríkismál þjóðarinnar.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir ekkert óeðlilegt við ræðu forseta en það sé hins vegar ríkisstjórnin en ekki forseti sem móti stefnu Íslands í utanríkismálum.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði við setningu Alþingis á fimmtudag að Evrópusambandið hefði engan áhuga á að ljúka aðildarviðræðum Íslands. Hann sagði ennfremur að meirihluti þingheims væri á móti aðild.

Embættismenn á vegum Evrópusambandsins settu sig í samband við utanríkisráðuneytið eftir ræðu forseta meðal annars til að fá upplýsingar um hver fari með utanríkismál þjóðarinnar.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir ekkert óeðlilegt við þessa fyrirspurn.

„Ég veit hins vegar að það hefur verið haft samband við fulltrúa í ráðuneytinu og menn spurt spurninga og það er ekkert óeðlilegt. Þeir hafi fengið skýr svör með það að það er utanríkisráðherra í ríkisstjórn þessari sem fer með utanríkismál, og ef þeir vilja frekari skýringar á því, þá er ég að fara til Brussel og mun ræða hlé á þessum viðræðum,“ segir Gunnar Bragi.

Gunnar telur eðlilegt að forseti hafi skoðun á þessum málum.

„Ég held að þetta snúist ekki um það hvort maður sé sammála forseta eða ekki. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að allir átti sig á því hver stjórnskipan landsins er og það er ríkisstjórnin sem fer með utanríkismál og mótar þá stefnu það kemur ekki í veg fyrir að forseti hafi skoðun á málefnum og greini frá þeim. en við skulum hafa það á hreinu að það er ríkisstjórni sem stýrir utanríkismálum,“ segir Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×