Innlent

Meginreglan að Reykjavík verði lágreist borg

ÞEB skrifar
Fleiri blokkir eins og þær sem standa við Sæbrautina fá ekki að rísa.
Fleiri blokkir eins og þær sem standa við Sæbrautina fá ekki að rísa. Fréttablaðið/GVA

Bannað verður að byggja ný háhýsi í miðborg Reykjavíkur samkvæmt nýju aðalskipulagi sem kynnt var í borgarráði í morgun. Hús sem verða reist innan Hringbrautar mega ekki vera hærri en fimm hæðir og sérstök hverfisvernd verður sett á svæðið til að vernda einkenni þess.

Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis-  og skipulagssviðs Reykjavíkur segir þessa stefnu marka tímamót.

„Þetta er í fyrsta sinn sem við erum með stefnu um hæðir húsa í aðalskipulagi. Þannig að stefnumótun í aðalskipulagi er lögð til grundvallar við alla deiliskipulagsgerð þannig að þetta hefur áhrif á þá uppbyggingu sem verður. Auðvitað hefur þetta ekki áhrif á eldri ákvarðanir en þetta hefur áhrif á nýjar ákvarðanir. Stefnan í aðalskipulaginu er að Reykjavík sé lágreist borg.“

Háhýsi verða því ekki heldur heimiluð annars staðar í borginni nema að uppfylltum sérstökum skilyrðum. Alltaf verður skoðað hvernig háhýsi myndu samræmast götumynd og hvaða áhrif þau hefðu á ásýnd, útsýni og skuggavarp á svæðinu.

„Þetta er svona meginregla og það var í vinnunni meginregla, og sérstaklega um miðborgina en þó bara meginregla fyrir borgina alla. Það var þó farið í ákveðnar greiningar því á sumum stöðum í borginni fer þetta ágætlega. Við sjáum húsin til dæmis við Suðurlandsbrautina sem eru gjarnan sex til átta hæðir og það á bara ágætlega heima þar, þannig að auðvitað eru einhvers konar undantekningar en þá eru það einhverjar landfræðilegar ástæður eða eitthvað annað í byggðinni sem gefur tilefni til að það sé byggt hærra.“

Helstu atriði nýja aðalskipulagsins verða kynnt fyrir almenningi á fundi í ráðhúsi Reykjavíkur klukkan korter yfir fimm í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×