Innlent

"Hvar er anarkismi Besta flokksins núna?"

Kristján Hjálmarsson skrifar
Hrafn segir að húsin þrjú sem hafi risið við Skúlagötuna hafi fegrað borgina mikið. "Reykvíkingar kalla þetta háhýsi. Þetta yrði hvergi annars staðar kallað háhýsi nema kannski á Jan Mayen," segir Hrafn.
Hrafn segir að húsin þrjú sem hafi risið við Skúlagötuna hafi fegrað borgina mikið. "Reykvíkingar kalla þetta háhýsi. Þetta yrði hvergi annars staðar kallað háhýsi nema kannski á Jan Mayen," segir Hrafn. Mynd/365

"Með þessari hugmynd er verið að lögfesta flatneskju. Borg er eins og skógur. Það eru mishá tré í skóginum og það þurfa að vera mishá hús til að borg fái einhvern takt," segir Hrafn Gunnlaugsson, kvikmyndagerðarmaður og áhugamaður um skipulagsmál, um nýtt aðalskipulag borgarinnar. Þar er fortakalaust bann sett við byggingu háhýsa á svæðinu innan Hringbrautar. Húsin mega ekki vera hærri en fimm hæðir.

Hrafn, sem gerði meðal annars myndina Reykjavík í öðru ljósi, er afar ósáttur við nýja aðalskipulagið og vill reisa fleiri háhýsum.

"Það lífgar geysilega upp á borgina að hafa Hallgrímskirkjuna upp á Skólavörðuholti og það er fallegt að horfa á Sjómannaskólann. Það er bara spurning hvernig þetta er gert. Það væri mjög fallegt að byggja virkilega stórt háhýsi rétt hjá Lækjartorgi til að ná upp háum punkti í miðborginni. Með því að byggja á hæðina getur þú gefið ungu fólki og fólki sem vill ekki endilega eiga bíl, og gerir ekki kröfur um að skipulagið fari eftir bílastæðum, tækifæri á að búa í miðbænum," segir Hrafn.  "Leiðin til að gefa fleira fólki tækifæri til að búa í miðborginni er að byggja upp á við en ekki á hlið. Flest hús á Íslandi eru byggð eins og fangelsi, eru múrveggir, upp á fjórar eða fimm hæðir. Þegar fólk samþykkir svona fær maður á tilfinninguna að það hafi gleymt því að það sé búið að finna upp lyftuna."

Hrafn segir nýja aðalskipulagið bera vott um rétttrúnað.

"Allur réttrúnaður, hvort sem er í pólitík eða skipulagsmálum, er mjög varasamur. Það eiga engar alhæfingar að vera í tilverunni. Mér finnst alveg hróplegt að flokkur sem kenndi sig við anarkisma, Besti flokkurinn, ætli að innleiða rétttrúnað í skipulagsmálum," segir Hrafn. "Það þarf að taka afstöðu til hvers og eins verkefnis. Skipulagsyfirvöld eru til þess að taka afstöðu til hverrar byggingar, hvers götuhorns og þess háttar. Það þarf háhýsi í miðborg hverrar borgar til að hún nái að anda. Mér finnst vera svo hróplegt misræmi í þessu og þarna eru menn að sverja af sér hverjir þeir eru. Hvar er anarkisminn núna ef það á að fara innleiða rétttrúnað og flatneskju?" spyr Hrafn og bætir við. "Ég ætla að biðja alla góða menn að huga þetta mál tvisvar. Rétttrúnaður á hvergi heima nema kannski í Norður-Kóreu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×